Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Alveg hellings guðfræði og eitthvað

Ég er alvarlega að velta fyrir mér að skipta algjörlega um gír í BA-verkefni á síðustu stundu, og taka að mér að skrifa guðfræðibók á nútímaslangri. Það er svosem ekki vitað til þess að Marteinn Lúther hafi látið eftir sér hafa hin fleygu orð "Mammaðín getur tekið orð sín aftur, skilurðu" og Karl Barth hefði líklega ekki sjálfur útskýrt andstöðu sína gegn náttúruguðfræði með frasanum "Hate the game, not the player". Enginn páfi er skráður á spjöld sögunnar fyrir að hafa sagt "Gaur ... WTF?", og Paul Tillich lýsti því væntanlega aldrei yfir að hann vildi "fatta hvað fólk væri að pæla". En hvað er eiginlega því til fyrirstöðu að svona málfar sé notað? Ég hyggst gefa út bókina Alveg hellings guðfræði og eitthvað við fyrsta tækifæri.

=Þ.


Játningar siðblinds lygara

Ég er kölluð siðblind, heimsk, og lygari á opinberum vettvangi. Ofstæki gegn mér er réttlætt með því að ég sé boðberi óréttlætis og heimsku. Mér er sagt að vegna skoðanafrelsis eigi skoðanir mínar ekki heima á almannafæri. Ég má ekki umgangast börn annarra nema með því skilyrði að ég lofi að veitast ekki að þeim með vitfirrtum hugmyndum mínum. Það er dæst yfir því að ég þurfi endilega að ala mín eigin börn upp við villutrú mína – get ég ekki leyft þeim að hugsa sjálfstætt? Það er rætt, og notað gegn mér, hve mikill hluti harma heimsins sé eiginlega mér og skoðanasystkinum mínum að kenna. Mér er tjáð að ég eigi ekki heima í nútímasamfélagi, nema þá ég láti af hugvillu minni. Það er hæðst að því sem er mér kært, og ef ég kvarta yfir því er mér bent á syndir feðra minna – við eigum þetta nú eiginlega skilið.

 

Hvort er ég kristin við upphaf 21. aldar eða gyðingur um miðbik þeirrar 20.?


Þolinmæði sr. Svavars Alfreðs

Ef ég væri með hatt myndi ég taka ofan fyrir sr. Svavari Alfreð Jónssyni. Það virðist vera samdóma álit ýmissa herramanna að athugasemdakerfi bloggs sérans sé ágætis völlur til skotæfinga í orðaformi, og virðist þar skipta litlu máli hvað Svavar lætur út úr sér. Ef presturinn myndi voga sér að staðhæfa að honum þætti t.a.m. kaffi ágætt, yrði hann blammaður niður á stundinni; einn myndi neita að taka þessa staðhæfingu gilda þar til Svavar kæmi til skýringar og sönnunar með tölur um kaffineyslu sína síðustu árin, annar myndi ásaka hann um tillitsleysi við þá sem þykir te betra, sá þriðji biðja Svavar að útskýra þessa kaffidrykkju sína í ljósi þekktra neikvæðra áhrifa kaffis á líkamann, og sá fjórði myndi láta ljós sitt skína með einhverri smellinni athugasemd um gáfnafar kaffidrykkjumanna. Ef Svavar kæmi ekki með umbeðin rök, sannanir og skífurit máli sínu til stuðnings yrði hann ásakaður um hugleysi og almennan aumingjaskap; “svona eruði allir, þessir kaffidrykkjumenn!”.

Þrátt fyrir þessa skotglöðu pörupilta bloggar Svavar enn. Hvaðan kemur honum þolinmæðin? Það væri gaman að vita. Ég er kannski ekki sammála honum í öllu, en fyrir geysilegri þolinmæði hans ber ég tvímælalaust gífurlega virðingu. Áfram Svavar!

=Þ. 


Sannleikurinn um Jones og Lewis

Eins og flestir sem þekkja mig vita er ég mikill aðdáandi C. S. Lewis. Margir vita líka að ég er ákaflega takmarkaður aðdáandi Gareth Jones, mannsins sem skrifaði hina hræðilega þreytandi Christian Theology, aðferðafræðibókina okkar frá því á haustönninni. Jones gæti líklega komið hlutunum ágætlega frá sér, en vandar sig svo við að fara varlega að lesendum sínum og öllum þeim hugmyndum sem þeir gætu mögulega haft, að hann nær varla að koma sínum eigin hugmyndum frá sér. Ég brosti þess vegna við lesturinn á bók Jones þegar ég sá speglast hjá honum, svo gott sem orðrétt, skoðun sem Lewis hæðist að ... það er næstum kómískt hversu auðveldlega Jones gæti verið maðurinn sem Screwtape talar um:

 

Lewis (úr skáldsögunni The Screwtape Letters, þar sem eldri djöfull ráðleggur yngri djöfli um hvernig sé best að brengla hugsun og hugmyndir mannsins): "He doesn’t think of doctrines as primarily “true” or false”, but as “academic” or “practical”, “outworn” or “contemporary”, “conventional” or “ruthless”. Jargon, not argument, is your best ally ... Don’t waste time trying to make him think that materialism is true!"

Jones (úr Christian Theology; þeir feitletra m.a.s. sama orð!): "... because it is impossible to identify a position from which one might verify or falsify, once and for all, whether or not, for example, the doctrine of the Trinity is true. What this question really means, of course, is “Is the doctrine of the Trinity accurate?” ... “truth” itself is contextual, and therefore determined for a given community by a given set of circumstances."

 

Það er samt líklega best að hafa allan varann á og taka fram að ég er ekki með þessu að segja að Jones sé andsetinn, eða sendur af djöflinum. Ég er heldur ekki að segja að ég sé fylgjandi hugmyndinni um að allt sé annaðhvort-eða sannleikur; ég er reyndar nær þeirri skoðun en afstæðishugmynd Jones, en það er önnur saga. Ég skelli bara upp þessum tilvitnunum vegna dásamlegs skemmtanagildis þeirra, eða réttara sagt skemmtanagildis þess hversu óhugnanlega líkar þær eru!


Vandi náungakærleikans

Fyrsti tíminn minn í Guðfræði díakoníunnar I var í dag. Kannski eftir því full snemmt að segja til um fagið sem heild, en fyrsti tíminn greip mig svo sannarlega ekki. Fagið virðist ganga út á spurninguna “hvers vegna ætti kristið fólk að sýna náungakærleik skv. Biblíunni?”, og felast í uppflettingu á versum og umræðu um þau. Heillandi? Hélt ekki. Efni í heilan áfanga? Svo sannarlega ekki. Æ, við sjáum til hvernig fer, kannski eru þetta bara byrjunarörðugleikar.

Þessi tími vakti reyndar upp eina spurningu hjá mér, sem Kristján Valur kennari sagðist ekki hafa velt fyrir sér áður – þannig að tíminn var svosem ekki með öllu ágóðalaus. Kærleiksverkin, náungakærleikurinn og þjónustan sem díakonían gengur út á, eru, skv. Kristjáni og Biblíunni (miskunnsami Samverjinn, hugmyndin um að það sem maður geri sínum minnsta bróður o.s.frv.), alltaf þjónusta við Krist sjálfan – semsagt, Guð biður um að við sýnum náungakærleik, og með því að sýna náunganum hann sýnum við Guði hann. Flestir kannast við þetta (ég man t.d. eftir þessu stefi í jólasögunni um Panov afa).

Vandamálið sem ég sé við hugmyndina er hins vegar þetta: Guð segir “sýndu náungakærleika”. Ef við hlýðum þessu boði vegna þess að Guð segir það, þá erum við að þjónusta Guð vegna guðsótta; hvatinn á bak við hlýðnina er ekki náungakærleikur heldur Guðkærleikur, ef svo má að orði komast, og við höfum þar með óhlýðnast því sem við erum að reyna að hlýðnast – við breyttum ekki af náungakærleik heldur guðsótta, sem var ekki það sem var beðið um.

Þá er ég ekki að tala um að við segjum “ég ætla að vera almennileg(ur) við náungann þó mig langi ekki til þess, því þá er ég í góðu bókunum hjá Guði”, heldur “mig langar til að breyta rétt vegna þess að það er það sem Guð vill”. Það er munur þar á. Fyrri hugsunin er augljóslega rangur hugsunarháttur, en vandinn sem ég er að tala um er sá sem felst í seinni hugsuninni, þó hún virki góð og rétt við fyrstu umhugsun. Hvatinn að lönguninni til að breyta rétt þar er ekki náungakærleikur heldur “vegna þess að það er það sem Guð vill”; við erum því að óhlýðnast boði Guðs “sýndu náungakærleika” með því að hlýða því! Eina leiðin til að hlýða þessu boði Guðs, að breyta af sönnum náungakærleika, er því að sýna náungakærleika algjörlega óháð því hvort Guð biðji um það eða ekki.

Ef við hlýðum boðinu, þá óhlýðnumst við því; eina leiðin til að hlýða því er að breyta án þess að hlýða því.

Snúið boð. Hugmyndir? Athugasemdir?


Um bloggið

Talhonjik

Höfundur

Þóra Ingvarsdóttir
Þóra Ingvarsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ég og Gunna-2
  • 9
  • 8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 339

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband