Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Órar afstæðishyggjunnar

“Það er allt merkingarlaust. Þú getur ekki sagt að neitt eitt sé betra en annað, því hver setur eiginlega mælikvarðann? Það er enginn slíkur mælikvarði til, og þess vegna er allt afstætt; rangt-rétt, satt-ósatt, gott-slæmt, þetta eru ekki mælanlegir eiginleikar í neinu.” Þetta er dæmi um hugmyndir afstæðishyggju. Sumum kann að þykja þetta hálf hráslagaleg heimsmynd, en ef hún gengur upp ... En gengur hún upp? Af hverju ætti maður að aðhyllast afstæðishyggju?

Ef allt er merkingarlaust, allt er tilgangslaust, og ekkert hefur hærra gildi en annað, hví skyldi ég þá samt ekki hegða mér eins og heimurinn hefði merkingu, tilgang og gildi? Því hann hefur þau ekki? Þú getur ekki fullyrt, ef þú samþykkir þessa heimsmynd, að skoðun X sé réttari en skoðun Z, eða athöfn A sé betri eða réttari en athöfn B. Þú getur því ekki fullyrt að skoðun mín að heimurinn hafi merkingu sé verri en skoðun þín að hann hafi þau ekki, og ekki fullyrt að það að ég breyti eftir gildum sé verra en að þú breytir ekki eftir gildum. Þú getur ekki sagt að afstæðishyggja sé réttari en tilgangshyggja, ef hugtökin rétt og rangt eru afstæð. Til að vera samkvæmt sjálfu sér þyrfti afstæðishyggjufólk að samþykkja að það að trúa á gildi og reglur, og lifa skv. þeim, sé nákvæmlega jafn þýðingarmikið/lítið og það að afneita öllum gildum og reglum. Afstæðishyggja sé því, skv. sínum eigin reglum, engu betri en nokkur önnur hugmyndafræði. Hún kemur í kassa sem á stendur “ATH: Þessi vara er engu betri en allar hinar vörurnar í hillunni”. Hví ætti maður að kaupa slíka vöru?

Semsé: það er, skv. afstæðishyggjunni sjálfri, engin ástæða til að aðhyllast afstæðishyggju umfram aðrar hugmyndir. Hún getur auk þess ekki sett fram neina gagnrýni á það að maður lifi algjörlega andstætt hugmyndum hennar, því það að gagnrýna myndi gefa til kynna að það væri hægt að lifa betur eða réttar, og gott og rétt eru merkingarlaus hugtök fyrir afstæðishyggju.

Og það er ekki hægt að aðhyllast neina hálf-afstæðishyggju, að segja “það eina sem er gott og rétt er að það sé ekki hægt að segja að neitt annað sé gott eða rétt”; með því hefur maður samt leyft tilvist mælikvarða. Það skapar fleiri vandamál en það leysir – hver ert þú t.d. að draga mörkin á því yfir hvað mælikvarðar mega gilda? Þú getur ekki rökstutt af hverju þessi eini mælikvarði megi gilda, því rök eru merkingarlaus. Nema rök hafi líka merkingu? Þá erum við farin að færa okkur ansi langt uppá skaftið í því að gefa hlutum mælikvarðaleyfi eftir því sem það hentar okkur. Nei, annaðhvort eru mælikvarðar til eða ekki, það er ekki hægt að aðhyllast svona málamiðlanir útfrá eigin geðþótta.

Afstæðishyggja fellur um sjálfa sig við nánari skoðun. Það er a.m.k. engin ástæða til að aðhyllast hana, ekki einu sinni skv. hennar eigin hugmyndafræði. Uppörvandi, að mínu mati, að sjá að hvöt mannsins til tilgangsleitar samræmist mun betur rökum en afstæðishyggjan.

=Þ. 


Um bloggið

Talhonjik

Höfundur

Þóra Ingvarsdóttir
Þóra Ingvarsdóttir
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ég og Gunna-2
  • 9
  • 8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband