Játningar siðblinds lygara

Ég er kölluð siðblind, heimsk, og lygari á opinberum vettvangi. Ofstæki gegn mér er réttlætt með því að ég sé boðberi óréttlætis og heimsku. Mér er sagt að vegna skoðanafrelsis eigi skoðanir mínar ekki heima á almannafæri. Ég má ekki umgangast börn annarra nema með því skilyrði að ég lofi að veitast ekki að þeim með vitfirrtum hugmyndum mínum. Það er dæst yfir því að ég þurfi endilega að ala mín eigin börn upp við villutrú mína – get ég ekki leyft þeim að hugsa sjálfstætt? Það er rætt, og notað gegn mér, hve mikill hluti harma heimsins sé eiginlega mér og skoðanasystkinum mínum að kenna. Mér er tjáð að ég eigi ekki heima í nútímasamfélagi, nema þá ég láti af hugvillu minni. Það er hæðst að því sem er mér kært, og ef ég kvarta yfir því er mér bent á syndir feðra minna – við eigum þetta nú eiginlega skilið.

 

Hvort er ég kristin við upphaf 21. aldar eða gyðingur um miðbik þeirrar 20.?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér var bent á að þú hefðir tekið greinarstúf minn á vantrú.is til þín. Engin deili kann ég á þér en ef þú ætlar þér að skríða í sæng ríkiskirkjunnar, eða hefur hreiðrað um þig þar nú þegar, finnst mér fórnarlambskomplex þinn undarlegur. Ef þú vilt staðsetja þig á miðri 20. öld væri nær að setja þig í SS eða Hitlersæskuna, frekar en ofsóttan minnihlutahóp. Ein reich, ein fuhrer.... Einn guð, einn leiðtogi.

 Ef þú getur kinnroðalaust sagt að játningar kirkju þinnar séu gáfulegar, bið ég þig vel að lifa.

Reynir (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 18:04

2 identicon

Snilldarfærsla, þar sem punktur þinn er undirstrikaður af hæðnislegu yfirlæti Reynis hér fyrir ofan.

Jakob (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 18:15

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Snilldarfærsla"!

Í stað þess að ræða eitt einasta atriði í þeim pistlum sem Þóra vísar á kvartar hún undan ofsóknum!

"Ofsóknum"

Eruð þið ekki að grínast?  Hver er að ofsækja hvern?  Þeir sem troða trúboði í leik- og grunnskóla eða þeir sem berjast gegn því.  Þeir sem halda því fram að það sé ekki til neitt siðgeði nema hið kristilega eða þeir sem því andmæla.  Þeir sem halda því fram að enginn sé sannur íslendingur nema hann sé kristinn eða hinir sem mótmæla.

Já vá hvað þið eruð ofsótt.

Matthías Ásgeirsson, 14.9.2008 kl. 19:01

4 identicon

haha þetta er frábært, get ekki orða bundist, viðlíka ritsnilld er vandfundin. Ég dýrka hvernig ákveðinn hópur trúaðra kýs að taka heilbrigðri skynsemi sem persónulegri móðgun, án þess þó að bera fyrir því rök að pistillinn á Vantrú beri keim ofstækis í sinn garð. Manneskja sem svo sannfærð er í sinni sök ætti ekki að eiga í vandræðum með það. Enda geri ég ráð fyrir að ástæða ötullar baráttu Vantrúarmanna gegn trúboði hafi ekki mikið með þeirra eigin trúleysi að gera (þar sem þeir eru jú trúlausir), heldur fyrst og fremst að koma í veg fyrir að grunnskólar og leikskólar landsis verði einhvers konar gróðrarstía aldagamallatrúarhugmynda(þjóðkirkjunnar) á undahaldi.



Anna (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 19:30

5 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Biskup Íslands kallar samtökin Siðmennt hatrömm samtök fyrir að vilja trúboð (ekki trúarbragðafræðslu) út úr skólum. Formaður Framsóknarflokksins segir trúlausa hafa verra siðgæði en kristna (Kastljós sjónvarpsins 13.12.07.

Þetta eru framámenn í okkar samfélagi, ekki bara bullarar á bloggsíðum eða pistlahöfundar á vefsíðu.

Ég held ekki að Reynir hafi beint orðum sínum til þín persónulega heldur miklu frekar að þessum mönnum. Það er alvarlegt mál þegar menn í þeirra stöðu gefa almenningi þennan tón og þar með ákveðið veiðileyfi á þá sem ekki fylgja fjöldanum. Það er trúfrelsi á Íslandi og ég fer fram á að það sé virt.

Ég er utan trúfélaga og meðlimur í Siðmennt. Mér er ljóst hvaða skoðun biskup og Guðni Ágústsson hafa á mér. Ég og aðrir í minni stöðu áskiljum okkur rétt til að svara fyrir okkur þegar að okkur er vegið.

Kristjana Bjarnadóttir, 14.9.2008 kl. 21:09

6 identicon

Þóra mín, sértrúarsöfnuðurinn Vantrú hefur höndlað sannleikann hinn eina sem hefur því miður yfirritað þinn sannleika og allra annara.  þetta eru um 80 snillimenni sem vita betur en mannkynið allt og í raun ættum við að koma þeim félögum í gifsmót, komandi kynslóðum til skrauts og ununar í stað þeirra heimskulegu trúartákna sem nú eru notuð.

frábært þeir hafi séð hvað allir eru mikil fífl, vá hvað þeir eru miklir snillingar

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 00:05

7 Smámynd: Þóra Ingvarsdóttir

Þakka mikil og margvísleg viðbrögð!

 

Mattías – Þú talar um að ég ræði ekki efni þeirra greina sem ég vísa í. Eins og ég skildi grein Reynis talar hann þar um að hann missti trúna ungur og hafi síðar velt hlutunum mikið fyrir sér, og sé í dag enn sannfærðari í trúleysi sínu. Honum finnist í lagi að tala harkalega gegn trúarbrögðum, því honum finnist þau vera óréttlæti og heimska. Ég sé svosem enga ástæðu til að ræða trúarsannfæringu Reynis frekar (hún er hans eigið mál), og efni textans míns er því einmitt síðari hluti greinar hans; skoðun mín á þeirri staðhæfingu. Lisa Magnusson er líka ansi harkaleg (svo ekki sé minnst á ofureinfaldaða lýsingu hennar á trúarbrögðum), og það er það atriði greinar hennar sem ég er að benda á. Punkt hennar skil ég sem mjög svipaðan Reynis – trúarbrögð eru ljót og ill, og þess vegna er í lagi að ég sé reið(ur). Og það er aftur einmitt það sem ég er að ræða.

 

Trúboð í leik- og grunnskólum hef ég rætt áður, einmitt á vantru.is. Kynning á kirkjustarfi og frelsi til skoðanatjánings er eitt, uppáþrengjandi trúarplögg er annað. Ég tel að kristið siðgæði sé gott, en alls ekki að siðgæði sé ómögulegt án kristninnar – það myndi stríða gegn allri skynsemi. Og þjóðerni mótast ekki af trú, frekar en háralit. Svona svo ég komi stuttlega inn á atriðin sem þú nefnir.

 

Ég þakka hólið, Anna! Hins vegar er ég ekki alveg viss hvort þú sért að tala um mig eða ekki þegar þú talar um fólk sem tekur heilbrigðri skynsemi sem mógðun – ég verð bara að vona ekki, ég er mikill aðdáandi skynseminnar.

 

Rétt er það, Kristjana, að það hafa fallið eftirsjárverð orð beggja megin borðsins. Hins vegar vil ég benda á að orðin sem ég tók í textanum mínum hafa fallið bara síðustu vikuna, og eru alls ekki þau einu – finnst þér það ekki vera í harðari og tíðari kantinum?

 

Og Reynir beinir orðum sínum að kirkjunni og fólki sem trúir á Guð. Ég veit að hann ávarpaði mig ekki persónulega ... en ef maður segir “rauðhærðir eru fífl” er maður að kalla alla rauðhærða fífl, ekki bara þá sem eru áberandi mikið rauðhærðir. Ég er í kirkjunni og trúi á Guð – orð hans beindust því þar með m.a. að mér. Því miður.

 

Ég sem ætlaði að blogga um hvernig ég afþíddi frystikistuna ... ojæja.

Þóra Ingvarsdóttir, 15.9.2008 kl. 00:06

8 Smámynd: Þóra Ingvarsdóttir

Afsakið, Matthías er víst með h-i.

Þóra Ingvarsdóttir, 15.9.2008 kl. 00:07

9 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Ég má ekki umgangast börn annarra nema með því skilyrði að ég lofi að veitast ekki að þeim með vitfirrtum hugmyndum mínum."

Finnst þér þetta virkilega raunsönn lýsing á því sem Vantrú hefur verið að segja?

Það er hæðst að því sem er mér kært

Allt er einhverjum kært.  

Honum [Reyni] finnist í lagi að tala harkalega gegn trúarbrögðum, því honum finnist þau vera óréttlæti og heimska. 

Reyni finnst það í lagi vegna þess að forsvarsmenn trúarbragða haga sér  eins og þeir gera.  Trúðu mér, þú hefur ekki heyrt nema brot af því.

Sáli, fáðu hjálp.  Þráhyggja þín er ekki eðlileg.

Matthías Ásgeirsson, 15.9.2008 kl. 08:07

10 identicon

Það er lágmark að hæðarinn sjálfur þoli hæðni Matti og girtu upp um þig á því sviðinu

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 10:24

11 Smámynd: Katrín M.

Tal. Hefurðu einhvern tíman velt fyrir þér orðinu að "afþíða"?

meina, ef að þíða er að þíða

og afþíða er líka að þíða...

...ébbarabottnekkeríssu!

Katrín M., 15.9.2008 kl. 12:25

12 identicon

Þóra sagði: "Ég tel að kristið siðgæði sé gott, en alls ekki að siðgæði sé ómögulegt án kristninnar – það myndi stríða gegn allri skynsemi."

 Berðu þetta saman við eftirfarandi orð biskupsins:  "Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. " "Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar." "Ef börnin fá ekki lengur að heyra sögurnar af Jesú og læra boðskap hans, þá verða þau ... blind á birtu þess orðs og anda sem eitt megnar að lýsa, leiða og blessa í gleði og sorg, í lífi og í dauða." "Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla."

 Biskupinn talar hér greinilega gegn allri skynsemi þar sem hann telur (kristna) trú eina megna að lýsa og leiða og hamla gegn sálardauða og mannskemmandi trúleysi.

Svo er það spurningin um "kristið siðgæði", hvað er það? Er fallegt að slátra syni sínum vegna þess að (önnur?) börn manns eru ófullkomin? Samræmist það góðu siðgæði að telja mann sem giftist fráskilinni konu drýgja hór? Er það gott siðgæði að kasta fólki í "eldsofn" sem ekki fellur fram og tilbiður ósýnilegan en hefnigjarnan og afbrýðisaman guð? (Ég er drottinn guð þinn og hefni misgjörða feðranna í þriðja og fjórða lið.)

Og hvað segirðu um hugmyndir kirkju þinnar um nýfædd börn:

„Eftir fall Adams fæðast allir menn, sem getnir eru á eðlilegan hátt, með synd, en það merkir án guðsótta, án guðstrausts og með girnd. Þessi upprunasjúkdómur eða spilling er raunveruleg synd, sem dæmir seka og steypir í eilífa glötun þeim sem ekki endurfæðast fyrir skírn og heilagan anda.“ (Ágsborgarjátningin, 2. gr.)"

 

Þykir þér þetta smekklegt, siðlegt eða gáfulegt? Köstum sjúkum og spilltum börnum í eilífa glötun ef við skvettum ekki á þau vatni um leið og við viðhöfum töfraformúlu.

Reynir (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 12:56

13 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Þóra, þú ert nú alveg að missa þig í þessari ofsóknarfantasíu þinni. Hvaðan kemur til dæmis þetta:

Mér er sagt að vegna skoðanafrelsis eigi skoðanir mínar ekki heima á almannafæri.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 15.9.2008 kl. 21:51

14 Smámynd: Þóra Ingvarsdóttir

Matthías – mér hefur skilist á Vantrúarmönnum að þeim finnist að kennarar ættu að þegja um sínar persónulegu trúarskoðanir við nemendur sína. Ég þekki kennara sem eru ákaflega hræddir við að missa óvart eitthvað út úr sér um trú sína, því það gæti komið þeim í vandræði hjá foreldrum/skólayfirvöldum. Mér finnst þetta því ágæt lýsing, já.

 

Reynir – biskupinn spurði mig ekki álits áður en hann sagði þetta. Þú verður því að spyrja hann út í þessi orð hans, ekki mig. Varðandi það að það séu slæmir hlutir inni í kristninni: Ég tel að vísindi séu góð, þó þau hafi getið af sér atómsprengjuna. Ég tel að faðir minn sé góður maður, þó hann missi stundum stjórn á skapi sínu. Ég tel að fjölmiðlar landsins séu góðir, þó þeir fari stundum með hlutdrægni og/eða vitleysu. Hví skyldi þetta ekki gilda um kristið siðgæði? Eða ætti ég að afneita vísindunum vegna þess að þau hafa getið af sér slæma hluti í fortíðinni?

 

Hjalti – þetta kemur frá þeirri hugsjón að trúarskoðanir eigi ekki heima í skólum, ekki í fjölmiðlum, ekki á setningu Alþingis, o.s.frv – þ.e.a.s. á almannafæri. Eins og ég skil þetta er því haldið fram að samfélagið eigi rétt á skoðanafrelsi, og þess vegna sé ekki rétt að skoðanir mínar fái að vera á þessum stöðum. Ergo setningin sem veldur þér áhyggjum.

 

Kata – ég velti þessu orði einmitt fyrir mér þegar ég var búin að skrifa það. Var ég kannski að þíða ísskápinn frekar en afþíða? En ég var samt bara að þíða ísinn úr honum ... og væri ekki að “afþíða” að frysta aftur það sem hefði áður verið þítt? Ég vil hafa frystinn minn íslausan, takk, ég ætla ekkert að frysta klakana aftur í hann. Það væri kjánalegt.

 

-Þóra sem botnar heldur ekkert í þessu með “(af)þíða”.

Þóra Ingvarsdóttir, 16.9.2008 kl. 09:42

15 identicon

Þú ert ágæt, Þóra. Mér sýnist þú geta tekið undir að biskupinn tali gegn allri skynsemi og að grunnstefin í kristnu siðgæði séu siðlaus. Kannski er ekki svo langt á milli okkar.

Reynir (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 10:41

16 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hjalti – þetta kemur frá þeirri hugsjón að trúarskoðanir eigi ekki heima í skólum,..

Þóra, til að byrja með þarft að skilgreina hvað þú átt við með að "trúarskoðanir eigi ekki heima" einhvers staðar. Til dæmis hefur aðalbaráttumál Vantrúar í sambandi við skóla verið það að trúboð eigi ekki heima í opinberum skólum.

...ekki í fjölmiðlum,...

Nú skil ég heldur ekki hvað þú átt við. Eina sem mér dettur í hug er það að við höfum kvartað yfir því að ríkisfjölmiðlarnir séu að senda eingöngu út áróður fyrir kristna trú. Alveg eins og það væri kvartað undan því ef ríkisfjölmiðlar myndu senda reglulega út áróður fyrir einhvern einn stjórnmálaflokk. Það væri ekki það sama og að segja að skoðanir fólksins sem aðhyllist þær skoðanir

... ekki á setningu Alþingis, o.s.frv...

Við erum einfaldlega að tala um að Alþingi hefjist ekki á kristinni trúarathöfn, að hið opinbera sé ekki sérstaklega kristið. Undarlegt að þú skulir telja jafnrétti vera einhvers konar skoðanakúgun.

...– þ.e.a.s. á almannafæri.

Nei, það er enginn að banna þér að tjá trúarskoðanir þínar á almannafæri og það er enginn að fara fram á það. Þetta eru ofsóknarfantasíur hjá þér.

Eins og ég skil þetta er því haldið fram að samfélagið eigi rétt á skoðanafrelsi, og þess vegna sé ekki rétt að skoðanir mínar fái að vera á þessum stöðum. Ergo setningin sem veldur þér áhyggjum.

Þóra, þetta er óskiljanlegt. Það er bara verið að fara fram á það að hið opinbera (ríkið og sveitarfélög) séu ekki að hygla ákveðnum trúarbrögðum. Að túlka það sem einhvers konar skoðanakúgun er út í hött.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.9.2008 kl. 12:11

17 Smámynd: Þóra Ingvarsdóttir

Reynir, mér er gjörsamlega óskiljanlegt hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu að “ég er ekki sammála A í öllu sem hann segir” jafngildi “mér finnst A tala gegn allri skynsemi”, og að “X er ekki alveg fullkomið” jafngildi “X er siðlaust”. Þær ályktanir hefurðu dregið langa og grýtta leið!

 

Hjalti, ég endurtek það sem ég sagði við Matta – það sem ég er að gagnrýna er þessi stefna að kennarar megi ekki tjá sig um sínar persónulegu trúarskoðanir við nemendur sína, að þurfa að þegja yfir því sem þeim finnst. Eins og með allar skoðanir gildir það að sjálfsögðu að það á ekki að þröngva neinu uppá börnin – en að mega ekki tjá sig kalla ég skort á tjáningarfrelsi.

 

Varðandi fjölmiðlana – ég las nýlega grein á Vantrú þess efnis að höfundi þætti óviðeigandi að sýndir væru gospeltónleikar á RÚV, auk þess að Orð kvöldsins hefur verið tekið út af Rás 1 vegna þrýstings um, einmitt, að trú ætti ekki heima í fjölmiðlum.

 

 Ég hefði persónulega ekkert á móti því að önnur trúarbrögð fengu svipaða meðferð, ef áhugi er hjá viðkomandi trúfélögum fyrir slíku. Þá þætti þér fjölmiðlaumfjöllunin, Alþingissetningin, og skólamálin í lagi, ef önnur trúarbrögð fengu slíkt hið sama, er það ekki?

 

Afsakið biðina á svarinu -maður á annríkt ef maður ætlar að bjarga heiminum eins og ég.

Þóra Ingvarsdóttir, 19.9.2008 kl. 13:57

18 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hjalti, ég endurtek það sem ég sagði við Matta – það sem ég er að gagnrýna er þessi stefna að kennarar megi ekki tjá sig um sínar persónulegu trúarskoðanir við nemendur sína, að þurfa að þegja yfir því sem þeim finnst. Eins og með allar skoðanir gildir það að sjálfsögðu að það á ekki að þröngva neinu uppá börnin – en að mega ekki tjá sig kalla ég skort á tjáningarfrelsi.

Þóra og hvar hefur þessi stefna komið fram? Reyndar skil ég ekki hvers vegna kennarinn ætti að tjá sig um sínar persónulegu trúarskoðanir vð nemendur sína, það kemur kennslunni ekkert við.

Varðandi fjölmiðlana – ég las nýlega grein á Vantrú þess efnis að höfundi þætti óviðeigandi að sýndir væru gospeltónleikar á RÚV, auk þess að Orð kvöldsins hefur verið tekið út af Rás 1 vegna þrýstings um, einmitt, að trú ætti ekki heima í fjölmiðlum.

Eins og kom fram í umfjölluninni um tónleikana þá voru þetta ekki bara tónleikar, heldur voru þeir að stunda trúboð, sama á við Orð kvöldsins. Þrýstingurinn er sá að einhliða áróður (trúboð) á ekki heima á ríkisreknum fjölmiðlum. Það kvartar enginn undan því ef Fíladelfía og Þjóðkirkjan flytja efni sitt á Omega.

Ég hefði persónulega ekkert á móti því að önnur trúarbrögð fengu svipaða meðferð, ef áhugi er hjá viðkomandi trúfélögum fyrir slíku. Þá þætti þér fjölmiðlaumfjöllunin, Alþingissetningin, og skólamálin í lagi, ef önnur trúarbrögð fengu slíkt hið sama, er það ekki?

Nei, mér þætti til dæmis "skólamálin" ekki í lagi ef öll trúfélög (og trúleysisfélög) fengu að fara með áróður sinn í leik- og grunnskóla. Mér finnst að börn ættu að vera óhult í skólunum fyrir svona áróðri.

Síðan er það bara ekki framkvæmanlegt að láta hvert trúfélag (og trúleysisfélag) fá jafn mikinn tíma og Þjóðkirkjan á t.d. Rúv. Svo ættu ríkisfjölmiðlar ekki að vera að útvarpa áróðri. Trúmál ættu að vera eins og stjórnmál, það eru fræðslu- og umræðuþættir um stjórnmál á Rúv, en ekki einhliða áróður. Lárétt eða lóðrétt var dæmi um þátt sem ég var sáttur við.

Sama gildir um Alþingissetninguna, það er bara ekki hægt að láta Alþingismennina fyrst labba í kirkju, síðan hof Ásatrúarmanna, síðan mosku og svo framvegist.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.9.2008 kl. 14:52

19 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Og ég verð að bæta einu við í sambandi við færsluna sjálfa. Þar skrifar þú:

Þóra: Ég er kölluð ...heimsk... á opinberum vettvangi.

Ég athugaði færsluna sem þú vísaðir á og sá ekki að kristið fólk væri kallað heimsk, heldur var sagt að kristni væri heimskuleg, sem hún er svo sannarlega.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.9.2008 kl. 15:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Talhonjik

Höfundur

Þóra Ingvarsdóttir
Þóra Ingvarsdóttir
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ég og Gunna-2
  • 9
  • 8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband