Heimkoma og fréttir frá meginlandinu

Mínir kæru Íslendingar. Ef ég er ómissandi á landinu verðið þið einfaldlega að segja mér það. Það þýðir ekkert að þegja bara yfir því og láta allt fara til fjandans þegar ég gerist svo djörf að dveljast erlendis. Síðan kem ég aftur til landsins og hvað er búið að gerast? Jú, borgarstjórnin er fallin aftur, og einhverjum afbragðseintökum af tegundinni Homo Sapiens Hálfvitus dettur í hug að aflýsa Nightwish-tónleikunum. Ég er svosem farin að venjast þessu (yfirleitt þegar ég fer úr landi er skipt um forsætisráðherra), en þetta þykir mér þó einum of langt gengið. Ég er komin aftur, nú má einhver stökkva fram og hrópa “fyrsti apríl!”.

Ohhhh. Mig langaði á þessa tónleika.

Hef núna verið á landinu í 48 tíma, geysiupptekin við að sofa og gera ekki neitt. Evrópa bað að heilsa. Meðal þess sem þar fyrir augu bar var:

-stóísk önd

-ís í meira magni en ég kæri mig um að gera mér nákvæma grein fyrir

-villigaltapasta

-haglél á stærð við klaka úr klakavél

-viðbjóðslega stórir brekkusniglar

-skordýrabitasafn Gunnu

-lestarklefi sem innihélt m.a. okkur, fullan Frakka klæddan einungis í stuttbuxur og bleikan galdramannahatt, fimm slóvenska unglinga sem reyktu hass framan í okkur, og gaur með trommu.

-marsípansafn

-viele Löwen (weil es viele Löwen in Deutschland gibt)

-saltkringlur

Plús svo einhverjar borgir og hallir og kirkjur og listaverk og fjöll og eitthvað svoleiðis. En það nennir enginn að lesa um það. Lestarklefasöguna myndi fólk örugglega nenna að lesa, en það er of mikil harmsaga til að ég afberi að skrifa hana eins og er.

Í ferðinni sannfærðist ég líka endanlega um að ég sé í rauninni ítalskur umskiptingur (þ.e. að það hafi verið skipt á “mér” (þ.e.a.s. íslensk-ensku barni foreldra minna) og ítölsku barni (þ.e.a.s. mér í alvörunni) í æsku). Ég meina, það passar allt svo vel:

1. Ég borða pasta meira en hollt getur talist – alveg eins og Ítalir
2. Ég elska hvítlauk meira en hollt getur talist – alveg eins og Ítalir.
3. Mér finnst að allt sem ekki inniheldur hvítlauk ætti að innihalda blóðappelsínur – alveg eins og Ítölum finnst.
4. Ég á mjög erfitt með hugtakið “snyrtileiki” – alveg eins og Ítalir.
5. Ég er óvenju dökk fyrir Íslending eða Breta – við komu mína til Ítalíu upplifði ég það í fyrsta skipti að falla alveg inn í mannfjöldann hvað litarhaft varðar.
6. Ítalir voru stöðugt að ávarpa mig á ítölsku, þrátt fyrir að ég væri greinilega með fólki sem talaði ekki ítölsku.
7. Foreldrar mínir fóru með “mig” í frí til Ítalíu þegar ég var ekki orðin tveggja ára. Ég man ekki eftir neinu fyrir tveggja ára aldur. Tilviljun? Ég held ekki.

=Þ.

PS. Fyrirgefðu að ég svaraði þér aldrei, Margrét mín, og að við náðum ekki að hittast – ég sá kommentið þitt ekki fyrr en ég var farin út. Láttu mig vita um leið og þú ert næst á leið til landsins!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkomin heim og ég er nokkuð viss um að þú sért part italiano :) haha

Minnsta málið með svarið, vissi að þú værir að upplifa heiminn sjálf og því væri eitthvað lítið um stundir fyrir annað.

Vona bara að þú hafir notið þess, finnst mér reyndar sjá á skrifum þínum og svo hafi svo sannarlega verið.

Hittumst um jólin

knús

Margrét B (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Talhonjik

Höfundur

Þóra Ingvarsdóttir
Þóra Ingvarsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ég og Gunna-2
  • 9
  • 8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 371

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband