Færsluflokkur: Tónlist
28.4.2008 | 22:14
Slammæfingar og verðandi eiginmaður minn
Jæja. Núna á föstudaginn uppgötvaði ég að það voru ekki nema 6 mánuðir uppá dag þar til ég verð að vera komin í slamm-form. Ef einhver kann einhverjar góðar æfingar til að styrkja hálsvöðvana væru slíkar ábendingar því vel þegnar þann 25. október næstkomandi stefni ég nefnilega á að vera stödd í Laugardalshöllinni að slamma fram á nótt við ljúfan undirleik Nightwish. Já, finnska metalgoðsögnin er að koma til landsins, frétti ég um jólin síðustu, með nýju söngkonuna í farteskinu. Ég sýndi gífurlega stillingu við þessar fréttir, og lét það eiginlega alveg vera að hoppa og syngja fyrr en ég var komin heim til mín (einhverjir muna sjálfsagt eftir svipaðri sjálfstjórn sem ég sýndi þegar ég heyrði að Josh Groban kæmi til landsins; ég gekk pollrólega útaf mannmörgu pósthúsinu áður en ég skríkti síðan af kæti fyrir utan á mannlausu bílastæðinu).
Hér er líklega rétt að huga að þeim sem ekki þekkja átrúnaðargoðin sem ég er að tala um. Þetta myndband (Amaranth) ætti að skýra æsing minn:
Ég vil benda áhugasömum á að þarna gefur að líta framtíðareiginmann minn, Tuomas Holopainen það er þessi síðhærði og bráðlaglegi á hljómborðinu, upphafsmaður Nightwish, höfundur flestra laga þeirra, og heilinn á bak við sveitina. Sérstakur karakter ákvað upphaflega að hann vildi stofna metalhljómsveit með klassískri söngkonu þó enginn hefði gert slíkt áður, síðan að hann vildi nota sinfóníuhljómsveit í metallögum þó enginn hefði gert slíkt áður, og síðan allt í einu að hann vildi sparka klassísku söngkonunni sem hafði gert sveitina svona fræga og fá sér sænska Abba cover-band söngkonu í staðinn. Í hvert einasta skipti sögðu allir að hann væri klikkaður, og í hvert einasta skipti snarvirkaði það. Og í hvert einasta skipti kom hann af stað æði og allir vildu gera eins og Nightwish. Eruði hissa að ég skuli ætla að giftast svona manni? Ég hugsa að tónleikastoppið á Íslandi sé bara yfirskin, geri ráð fyrir að hin raunverulega ástæða sé að hann ætli að biðja mín. Kominn tími til líka.
=Þ.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Talhonjik
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar