Matseðill Kartöfluvinafélagsins

Ef gerð væri skoðanakönnun á því hvaða Íslending almenningur teldi ólíklegastan til að stunda tilraunaeldamennsku yrði ég væntanlega einhversstaðar í topp 10-15. Það er í ljósi þess gaman að segja frá því að síðastliðna viku hef ég fundið upp hvorki fleiri né færri en 3 uppskriftir, alveg sjálf. Erfiðleikastig þeirra og innihald endurspegla matreiðsluhæfileikastig mitt (þ.e. einhversstaðar á milli “Ég Borða Bara Hjá Mömmu” og “Latur Piparsveinn”), en eru furðu góðar miðað við einfaldleika, þó að því gefnu að manni þyki kartöflur góðar. Uppskriftirnar eru svohljóðandi:*

Kartöflubræðingur:

Innihald: Kartöflur, skinka, ostur, krydd

1)      Skerðu kartöflur í teninga. Steiktu umrædda teninga á pönnu. Hættu við þegar þú sérð að þú nennir þessu ómögulega svona þetta tekur of langan tíma, og taktu teningana úr pönnunni.

2)      Skerðu skinku í strimla og rífðu ost.

3)      Settu kartöfluteningana, skinkuna og ostinn saman í eldfast mót. Kryddaðu. Settu meiri ost yfir. Þegar þér finnst þú hafa sett nægan ost yfir, settu þá meiri ost.

4)      Settu þetta í ofninn þar til kartöflurnar eru ekki harðar lengur.

 

Kartöflustappa á la Þóra:

Innihald: Kartöflur, skinka, ostur, krydd

1)      Sjóddu kartöflur. ATH: Þetta tekur mun lengri tíma en þú heldur.

2)      Byrjaðu að flysja kartöflurnar. Uppgötvaðu að þær eru miklu heitari en þú hélst. Skelltu þeim því út í snjóinn úti á svölum. Taktu þær inn og kláraðu að flysja þær.

3)      Skerðu skinku í strimla og rífðu ost.

4)      Stappaðu kartöflurnar saman við ostinn og skinkuna. Kryddaðu.

 

Kartöflukökur:

Innihald: Kartöflur, skinka, ostur, krydd

1)      Sjóddu kartöflur. ATH: Þetta tekur mun lengri tíma en þú heldur.

2)      Byrjaðu að flysja kartöflurnar. Uppgötvaðu að þær eru miklu heitari en þú hélst. Skelltu þeim því út í snjóinn úti á svölum. Taktu þær inn og kláraðu að flysja þær.

3)      Skerðu skinku í strimla og rífðu ost.

4)      Stappaðu kartöflurnar saman við ostinn og skinkuna. Kryddaðu.

5)      Kveiktu á ofninum (ATH: Þetta tekur líka óhemju tíma) og settu bökunarpappír á plötu. Taktu kartöflustöppuna og gerðu úr henni smákökur á plötuna. Settu meiri ost ofan á kökurnar.

6)      Settu plötuna í ofninn. Taktu úr þegar kökurnar eru orðnar svolítið dekkri en þær voru.
 

*ATH: Í allar þessar uppskriftir má bæta að vild skrefinu a) Settu meiri ost.

Ég læt vita þegar ég verð búin að finna upp nógu margar piparsveina-kartöfluuppskriftir til að ég geti haldið matarboð sem samanstendur eingöngu af réttum búnum til úr kartöflum, skinku, osti og kryddi. Dagsetning þessa stofnfundar Kartöfluvinafélagsins auglýst síðar.

=Þ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daði Hrafnkelsson

ég er til í að vera í kartöfluvinafélaginu,, ég er þannig matarnörd að mér finnst skemmtilegra að setja þær niður og taka þær úr garðinum en að elda þær,,, en kartöflur eru líklega uppáhaldsa maturinn minn,,,,

 kveðja kartöflumaðurinn

Daði Hrafnkelsson, 8.2.2008 kl. 22:44

2 identicon

hahaha... þú ert sniðug! við eigum enneftir að hafa lasagnja teiti aftur, kanski við höfum bara kartöflu matarboð í staðinn...

hlakka til þá!

Vala (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 23:50

3 identicon

Hæ frænka. Talaðu við mig ef þig vantar fleiri kartöfluuppskriftir (spurning hvort til sé kartöflugen, að minnsta kosti liggur þessi áhugi örugglega í ættum). Gaman að lesa bloggið þitt, gangi þér vel og sjáumst um páskana er það ekki? Una.

Elín Una (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 22:16

4 identicon

P.S. hefurðu prófað Kartöflugraut?

Elín Una (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 22:18

5 Smámynd: Lára Bryndís Eggertsdóttir

Ég ætla að stela síðustu uppskriftinni.  Verst að kartöflurnar í eldhússkápnum mínum eru svo spíraðar að þær gætu labbað sjálfar í pottinn, en mundu líklega frekar labba í hina áttina ef þær fá að ráða...

Una, kartöflugrautur hljómar vibbailla (nýyrði á finnsku, ég fjöldaframleiði þau) en ég hef samt fengið dandalagóða kartöflusúpu hjá Eyþóri.

Lára Bryndís Eggertsdóttir, 15.2.2008 kl. 20:20

6 Smámynd: Þóra Ingvarsdóttir

Kartöflugrautur ... árangur hans veltur svolítið, held ég, á því hvað annað en kartöflur er í honum. Hef ekki prófað hann, en hann er ábyggilega fínn! Og jú,við sjáumst um páskana!

Ég er upp með mér að ættmenni mín sjái sér ekki aðeins fært að lesa bloggið mitt, heldur jafnvel að nappa uppskriftunum mínum - á minn mælikvarða er "einhver vill prófa sjálfur uppskriftina mína" nefnilega h.u.b. á við "Jamie Oliver bauð mér gestahlutverk í þættinum sínum" hjá öðru fólki.

Þóra Ingvarsdóttir, 16.2.2008 kl. 00:06

7 Smámynd: Lára Bryndís Eggertsdóttir

Ég reyndar er ekki með svalir þannig að ég get ekki kælt kartöflurnar þar, en þar sem mér hefur alltaf verið meinilla við að flysja kartöflur, m.a. af því hvað þær eru alltaf andstyggilega heitar, þá fann ég einhvern tímann það ágæta ráð að halda bara á þeim undir mátulega volgri bunu í eldhúsvaskinum og flysja þær þannig, kannski ekki mjög pró en virkar...

Lára Bryndís Eggertsdóttir, 16.2.2008 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Talhonjik

Höfundur

Þóra Ingvarsdóttir
Þóra Ingvarsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ég og Gunna-2
  • 9
  • 8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 380

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband