Lundúnarferðasaga - lygi líkust

Viðvörun: Eftirfarandi ferðasaga getur leitt til ferðatregðu og þunglyndis, og vakið klinískan ótta við samgöngukerfi Lundúnaborgar. Atburðirnir sem hér er lýst voru ekki sviðsettir.

 
Núna í janúar var ég hjá ömmu minni á Englandi, og skrapp yfir helgi til Manchester að heimsækja vini. Það var minnsta mál í heimi að komast þangað ... en sagan af heimferð minni er harmleikur af þeirri gráðu að ég þori ekki annað en að láta skýringarmyndir fylgja ef lesendur eiga að geta fylgst með flækjunum.

Hefst hér heimferðar saga Þóru, harmleikur í alltof mörgum þáttum

Nú, gamanið byrjaði ekki fyrr en ég var komin inn í Lundúnaborg. Lestarferðin frá Manchester gekk eins og í sögu, engar tafir eða leiðindi. Ég hafði farið seint að sofa og vaknað snemma, en svaf samt ekki í lestinni – ég hugsaði að ég myndi bara gera það í lestinni út úr London (úff ... ). Planið var einfalt: lestin frá Manchester stoppaði á Euston-stöð í London – þaðan tæki ég neðanjarðarlestina til Liverpool Street-stöðvar, og þaðan lestina heim út úr London.

1

 

En þegar til London var komið reisti fyrsta vandamálið sinn ljóta haus; Liverpool Street var lokuð vegna einhverra framkvæmda. Og það eru engar aðrar stöðvar í London sem fara í áttina heim til mín. Obbobbobb ...

2 

 

Ég dey nú samt ekki ráðalaus þó einni lestarstöð sé lokað. Ég vissi að lestin mín út úr London stoppaði á Stratford-stöð á leiðinni út úr borginni, og til Stratford er hægt að komast með neðanjarðarlestinni. Það var töluverður krókur að fara þangað frá Euston, en það var alveg mögulegt. Ég lagði því af stað í átt til Stratford.

3

 

Ferðin með Northern-línunni (svarta strikið) gekk hægt, sem mér fannst undarlegt, þar sem það var sunnudagur og það átti ekki að vera mikið álag á neðanjarðarlestakerfinu á þessum tíma. En ég komst nokkuð vandræðalaust yfir í Jubilee-línuna (græna strikið). Sú lína gekk enn hægar. Að lokum stoppaði lestin bara alveg á stöð úti í rassgati. Þar var hún stopp leeengi, a.m.k. 10 mínútur – fólk var farið að fara út. Þá kom loks tilkynning: vegna bilunar í samskiptabúnaði yrði Jubilee-línunni nú lokað. Farþegar á þeirri línu voru beðnir að fara úr lestunum á þeirri stöð sem þeir voru á. Ég neyddist til að gera það; þar sem engin önnur lína en Jubilee stoppaði á þessari stöð var ég því föst á neðanjarðarlestarstöð einhversstaðar í London. Það eina sem ég var viss um varðandi hvar í andskotanum ég væri var að ég væri ekki nálægt Stratford og lestinni heim.

4

 Það var farið að reyna virkilega á óbilandi trú mín á samgöngukerfi Lundúnaborgar. En ég neitaði að trúa því að ég væri föst, og fór út af stöðinni. Eftir nokkra umhugsun og kortaskoðun komst ég að því að ég var ekkert voðalega langt frá Docklands Light Railway-stöð (það er n.k. ofanjarðar-neðanjarðarlestarkerfi innan ákveðins svæðis borgarinnar). Og það sem meira er, ég vissi að síðasta stopp DLR-línunnar (bláa strikið) væri Stratford ... ég náði mér því í DLR-miða og beið í korter eftir þeirri mest hægfara lest sem ég hef komið í síðan í Lególandi. En hún fór a.m.k. í rétta átt.

5 

Ég hefði alveg verið sátt við að vandræðum mínum hefði verið lokið hér. Slíkri lukku átti ég þó ekki að fagna. Nokkrum stoppum frá Stratford stoppaði DLR-vagninn. Glöggir lesendur munu því miður geta ímyndað sér innihald tilkynningarinnar sem barst okkur þreyttum farþegunum til eyrna: DLR-lestin færi ekki lengra í þessa átt vegna framkvæmda. Farþegar væru vinsamlegast beðnir að fara út hér. Ég var aftur föst á stöð einhversstaðar í Hvergilandi, þar sem engin lest nema DLR stoppaði.

6 

 

Hér var ég farin að óska þess að ég hefði lagt mig í lestinni frá Manchester – ég var dauðþreytt, svöng, ákaflega pirruð og einstaklega föst. Ég vissi að ég var mun nær Stratford en ég hafði áður verið, en ekki það nálægt að ég treysti mér til að labba ein í myrkrinu (það var orðið framorðið á þessum tímapunkti ævintýrisins) gegnum hverfi sem ég hafði aldrei áður komið í. Ég rölti út af stöðinni, og fór að vinna í að finna mér strætó sem færi í rétta átt. Í fylgd hóps annarra pirraðra Stratford-fara tókst það á endanum, og við komumst í strætó sem fór á Stratford-stöð (strætóinn var ekki double decker. Þegar hér var komið við sögu hefði mér samt verið sama þó hann hefði verið þaklaus yfirleitt, eða hestdreginn, ef hann hefði komið mér í rétta átt).

Stratford, Stratford. Aldrei hafði þessi austur-Lundúnastöð verið jafn fögur í augum mínum. Allt ferðalagið hafði ég verið í reglulegu símasambandi við ömmu mína (sem beið eftir mér heima, og hefði dáið þrisvar af áhyggjum yfir seinkun minni ef ég hefði ekki hringt reglulega – mér var búið að seinka um nokkra klukkutíma hérna). Allt í kringum mig á Stratford var þreytulegt fólk í símanum, og allir sögðu einhverskonar útgáfu af því sama: “mér seinkaði, ég veit ekki hvað er í gangi í neðanjarðarlestunum, þú getur ekki ÍMYNDAÐ þér hverju ég er búin(n) að lenda í ...”. Ég fann rétta lest.

7

 

Sagan, ótrúlegt en satt, heldur áfram. Þetta var rétt lest. En vegna einhverra framkvæmda á teinunum fór hún ekki alla leið til Walton, heldur stoppaði í Marks Tey. Til viðmiðs má ímynda sér að rútan frá Akureyri færi af einhverjum ástæðum ekki alla leið til Reykjavíkur, heldur stoppaði í Borgarnesi og færi ekki lengra. 

Ég var ekki hress. Ó, svo mikið ekki hress. En Borgarnes, þó það sé ekki Reykjavík, er allavega fjandanum nær Reykjavík en Akureyri. Ég fór þess vegna í lestina, því hvað átti ég að gera? Setjast niður og grenja?

8

 

Til Marks Tey komst ég á endanum. Þar skoðaði ég málin – í ljós kom að ég gat tekið rútu frá Marks Tey til Walton, ef ég nennti að bíða í klukkutíma (ég hafði rétt misst af síðustu rútu). Ég hafði ekki val um að nenna því eða ekki; ég beið í klukkutíma á stöðinni, og rútan kom á endanum. Hún var double decker, en mér var eiginlega sama. Ég sat niðri því ég var eini farþeginn, og ég vildi ekki hætta á að bílstjórinn héldi að rútan væri orðin tóm og færi bara heim til sín og læsti mig inni (miðað við hvernig dagurinn hafði gengið var það alveg raunhæf hætta). Ég var of þreytt til að vera almennilega pirruð yfir því að rútubílstjórinn þurfti að stoppa á svona 40 milljón stöðvum og bíða í 10-15 mínútur á hverri, þó klukkan væri orðin 10-11 að kvöldi og engir farþegar sjáanlegir, og spjalla við félaga sinn á hverri lestarstöð fyrir sig sem við stoppuðum á. Loksins sniglaðist hann inn til Walton. Ég trúði því varla að ég hefði komist á leiðarenda; undir lokin átti ég alveg eins von á að rútunni yrði rænt af geimverum.

 

 

 

Ég hafði ætlað að skreppa til London í búðir næsta dag. Það gerði ég ekki.

=Þ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ji minn einasti, gott að ég var ekki í þessu ferðalagi. Það versta sem ég veit er að lenda í einhverju svona.  Þó minn háski virðist hafa verið helmingu betri en þinn eftir þessa lesningu!

 Kveðja í borgina!  Á að kíkja norður um páskana?

Valborg (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 20:53

2 Smámynd: Lára Bryndís Eggertsdóttir

Hjaaaaáááálp þetta er ein skelfilegasta ferðasaga sem ég hef heyrt! Var einmitt að velta því fyrir mér í fúlustu alvöru að láta mér nægja almenningssamgöngur í Danmörku og sleppa bílnum en veit ekki alveg núna...

Lára Bryndís Eggertsdóttir, 18.3.2008 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Talhonjik

Höfundur

Þóra Ingvarsdóttir
Þóra Ingvarsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ég og Gunna-2
  • 9
  • 8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 384

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband