16.2.2009 | 11:05
Sigling Dagfara
There was a boy called Eustace Clarence Scrubb, and he almost deserved it. His parents called him Eustace Clarence and masters called him Scrubb. I cant tell you how his friends spoke to him, for he had none.
Ég neyðist til að lesa Siglingu Dagfara í dag í tengslum við BA-verkefnið mitt. Mikið á ég bágt.
Það er reyndar aðallega bókin sem á bágt ...
Það er orðið vandaverk að fletta henni af aldursástæðum meira en helmingur blaðsíðanna er laus sökum oflesturs. En ég hef alltaf sagt að það hversu snjáð bók sé segi til um hversu mikið hún sé elskuð (svo hjálpar auðvitað ekki ef hún er í einstaklega óharðgerðri útgáfu). Annars er það á óskalistanum mínum að eignast allar Narníubækurnar á sama tungumálinu, og jafnvel sömu útgáfunni, og hugsanlega órifnar.
Umfjöllun um bókina kemur að lestri loknum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2009 | 23:50
Alveg hellings guðfræði og eitthvað
Ég er alvarlega að velta fyrir mér að skipta algjörlega um gír í BA-verkefni á síðustu stundu, og taka að mér að skrifa guðfræðibók á nútímaslangri. Það er svosem ekki vitað til þess að Marteinn Lúther hafi látið eftir sér hafa hin fleygu orð "Mammaðín getur tekið orð sín aftur, skilurðu" og Karl Barth hefði líklega ekki sjálfur útskýrt andstöðu sína gegn náttúruguðfræði með frasanum "Hate the game, not the player". Enginn páfi er skráður á spjöld sögunnar fyrir að hafa sagt "Gaur ... WTF?", og Paul Tillich lýsti því væntanlega aldrei yfir að hann vildi "fatta hvað fólk væri að pæla". En hvað er eiginlega því til fyrirstöðu að svona málfar sé notað? Ég hyggst gefa út bókina Alveg hellings guðfræði og eitthvað við fyrsta tækifæri.
=Þ.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2009 | 18:01
Haustið og áramótaheit 2008
Nú, lítið af bloggum síðasta haust. Ástæður fyrir því voru:
-Full tafla af einingum í HÍ, sem innihélt ...
-... forngrísku
-Stjórn nemendafélags guðfræðinema
-Stjórn málfundafélagsins Gladius
-Stjórn kórs guðfræðinema
-Mótettukór Hallgrímskirkju
-Barnadeild Debenhams
-D&D spilahópur (tveir svoleiðis)
-Miðaldafélagið SCA-Klakavirki
-Félagslíf (já, ógn og skelfing þetta félagslíf)
-Facebook (í rauninni án mikils gríns)
Og þá að hinum árlegu nýársheitum fyrir árið 2008 (já, 2008, ekki 2009. Það er eftir ár):
*Komast í gegnum fyrsta árið í háskóla
*Finna mér svala vinnu með skólanum
*Fara í Evrópuferð með vinkonum mínum
*Fara til Ítalíu
*Fá að búa með vinkonu minni
*Verða formlega kórstjóri (kórstýra?) með alvöru kór
*Læra forngrísku
*Læra að elda HVAÐ SEM ER úr kartöflum
*Æfa skylmingar
*Eignast helling af nýjum, skemmtilegum vinum
Og viti menn 10 af 10 fyrir áramótaheitin, annað árið í röð! Það borgar sig að strengja áramótaheitin eftirá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2008 | 15:43
Játningar siðblinds lygara
Ég er kölluð siðblind, heimsk, og lygari á opinberum vettvangi. Ofstæki gegn mér er réttlætt með því að ég sé boðberi óréttlætis og heimsku. Mér er sagt að vegna skoðanafrelsis eigi skoðanir mínar ekki heima á almannafæri. Ég má ekki umgangast börn annarra nema með því skilyrði að ég lofi að veitast ekki að þeim með vitfirrtum hugmyndum mínum. Það er dæst yfir því að ég þurfi endilega að ala mín eigin börn upp við villutrú mína get ég ekki leyft þeim að hugsa sjálfstætt? Það er rætt, og notað gegn mér, hve mikill hluti harma heimsins sé eiginlega mér og skoðanasystkinum mínum að kenna. Mér er tjáð að ég eigi ekki heima í nútímasamfélagi, nema þá ég láti af hugvillu minni. Það er hæðst að því sem er mér kært, og ef ég kvarta yfir því er mér bent á syndir feðra minna við eigum þetta nú eiginlega skilið.
Hvort er ég kristin við upphaf 21. aldar eða gyðingur um miðbik þeirrar 20.?
24.8.2008 | 17:56
Heimkoma og fréttir frá meginlandinu
Mínir kæru Íslendingar. Ef ég er ómissandi á landinu verðið þið einfaldlega að segja mér það. Það þýðir ekkert að þegja bara yfir því og láta allt fara til fjandans þegar ég gerist svo djörf að dveljast erlendis. Síðan kem ég aftur til landsins og hvað er búið að gerast? Jú, borgarstjórnin er fallin aftur, og einhverjum afbragðseintökum af tegundinni Homo Sapiens Hálfvitus dettur í hug að aflýsa Nightwish-tónleikunum. Ég er svosem farin að venjast þessu (yfirleitt þegar ég fer úr landi er skipt um forsætisráðherra), en þetta þykir mér þó einum of langt gengið. Ég er komin aftur, nú má einhver stökkva fram og hrópa fyrsti apríl!.
Ohhhh. Mig langaði á þessa tónleika.
Hef núna verið á landinu í 48 tíma, geysiupptekin við að sofa og gera ekki neitt. Evrópa bað að heilsa. Meðal þess sem þar fyrir augu bar var:
-stóísk önd
-ís í meira magni en ég kæri mig um að gera mér nákvæma grein fyrir
-villigaltapasta
-haglél á stærð við klaka úr klakavél
-viðbjóðslega stórir brekkusniglar
-skordýrabitasafn Gunnu
-lestarklefi sem innihélt m.a. okkur, fullan Frakka klæddan einungis í stuttbuxur og bleikan galdramannahatt, fimm slóvenska unglinga sem reyktu hass framan í okkur, og gaur með trommu.
-marsípansafn
-viele Löwen (weil es viele Löwen in Deutschland gibt)
-saltkringlur
Plús svo einhverjar borgir og hallir og kirkjur og listaverk og fjöll og eitthvað svoleiðis. En það nennir enginn að lesa um það. Lestarklefasöguna myndi fólk örugglega nenna að lesa, en það er of mikil harmsaga til að ég afberi að skrifa hana eins og er.
Í ferðinni sannfærðist ég líka endanlega um að ég sé í rauninni ítalskur umskiptingur (þ.e. að það hafi verið skipt á mér (þ.e.a.s. íslensk-ensku barni foreldra minna) og ítölsku barni (þ.e.a.s. mér í alvörunni) í æsku). Ég meina, það passar allt svo vel:
1. Ég borða pasta meira en hollt getur talist alveg eins og Ítalir
2. Ég elska hvítlauk meira en hollt getur talist alveg eins og Ítalir.
3. Mér finnst að allt sem ekki inniheldur hvítlauk ætti að innihalda blóðappelsínur alveg eins og Ítölum finnst.
4. Ég á mjög erfitt með hugtakið snyrtileiki alveg eins og Ítalir.
5. Ég er óvenju dökk fyrir Íslending eða Breta við komu mína til Ítalíu upplifði ég það í fyrsta skipti að falla alveg inn í mannfjöldann hvað litarhaft varðar.
6. Ítalir voru stöðugt að ávarpa mig á ítölsku, þrátt fyrir að ég væri greinilega með fólki sem talaði ekki ítölsku.
7. Foreldrar mínir fóru með mig í frí til Ítalíu þegar ég var ekki orðin tveggja ára. Ég man ekki eftir neinu fyrir tveggja ára aldur. Tilviljun? Ég held ekki.
=Þ.
PS. Fyrirgefðu að ég svaraði þér aldrei, Margrét mín, og að við náðum ekki að hittast ég sá kommentið þitt ekki fyrr en ég var farin út. Láttu mig vita um leið og þú ert næst á leið til landsins!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.7.2008 | 01:19
Sumarið og haustið
Ég blogga ekki þessa dagana, vegna þess að ég hef frá engu að segja. Lífið gengur út á að vakna, selja fólki barnaföt í Debenhams, koma heim, lesa/horfa á sjónvarp/spila tölvuleiki, og sofna. Einn frídagur í viku sem fer þá í tiltekt og Bónusferð. Ekki misskilja mig, ég elska vinnuna mína; þetta er bara svo mikið einhæfara en ég á að venjast. Svona er lífið þegar er enginn skóli.
Ástand mitt utan skóla er sorgleg saga. Viku eftir próflok hafði ég það fínt. Eftir tvær vikur hefði ég verið alveg til í að fara aftur í skólann. Eftir þrjár var ég komin vel á veg með fráhvarfseinkenni, og held aðeins aftur af yfirþyrmandi þunglyndi nokkurskonar and-skólaleiða míns með því að vera með guðfræðibækur á náttborðinu. Í sumar hef ég því fræðst allnokkuð um hugmyndina um höfuðsyndirnar sjö, guðfræði Freuds, sögu fyrstu krossferðarinnar o.fl., auk þess að vera byrjuð að glugga í grískuna. Sorgleg? Nei, þetta er bara áhugamál mitt. Ég er bara svo heppin að það er líka það sem ég er að læra á veturna!
England eftir tvær vikur, Ítalía eftir rúmar þrjár. Undirbúningur Interrail-ferðarinnar gengur (hratt þegar maður andar ofan í hálsmálið á fólki en annars töluvert hægar), en planið er á heildina litið nokkurnveginn komið - Ítalía-Slóvenía-Ungverjaland-Slóvakía-Austurríki-Þýskaland. Sendi póstkort ef ég ákveð að setjast að í Slóveníu og gerast geitabóndi. Hví ekki?
Síðan er það heimkoma og skólasetning. Og McGrath, einn af þremur mönnum í lífi mínu (hinir tveir eru að sjálfsögðu C. S. Lewis og Tuomas Holopainen), á leið til landsins í september! Við Jakob bekkjarbróðir höfum planað að sitja í fremstu röð á öllum fyrirlestrunum hans og redda okkur backstage-pössum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.5.2008 | 11:36
Órar afstæðishyggjunnar
Það er allt merkingarlaust. Þú getur ekki sagt að neitt eitt sé betra en annað, því hver setur eiginlega mælikvarðann? Það er enginn slíkur mælikvarði til, og þess vegna er allt afstætt; rangt-rétt, satt-ósatt, gott-slæmt, þetta eru ekki mælanlegir eiginleikar í neinu. Þetta er dæmi um hugmyndir afstæðishyggju. Sumum kann að þykja þetta hálf hráslagaleg heimsmynd, en ef hún gengur upp ... En gengur hún upp? Af hverju ætti maður að aðhyllast afstæðishyggju?
Ef allt er merkingarlaust, allt er tilgangslaust, og ekkert hefur hærra gildi en annað, hví skyldi ég þá samt ekki hegða mér eins og heimurinn hefði merkingu, tilgang og gildi? Því hann hefur þau ekki? Þú getur ekki fullyrt, ef þú samþykkir þessa heimsmynd, að skoðun X sé réttari en skoðun Z, eða athöfn A sé betri eða réttari en athöfn B. Þú getur því ekki fullyrt að skoðun mín að heimurinn hafi merkingu sé verri en skoðun þín að hann hafi þau ekki, og ekki fullyrt að það að ég breyti eftir gildum sé verra en að þú breytir ekki eftir gildum. Þú getur ekki sagt að afstæðishyggja sé réttari en tilgangshyggja, ef hugtökin rétt og rangt eru afstæð. Til að vera samkvæmt sjálfu sér þyrfti afstæðishyggjufólk að samþykkja að það að trúa á gildi og reglur, og lifa skv. þeim, sé nákvæmlega jafn þýðingarmikið/lítið og það að afneita öllum gildum og reglum. Afstæðishyggja sé því, skv. sínum eigin reglum, engu betri en nokkur önnur hugmyndafræði. Hún kemur í kassa sem á stendur ATH: Þessi vara er engu betri en allar hinar vörurnar í hillunni. Hví ætti maður að kaupa slíka vöru?
Semsé: það er, skv. afstæðishyggjunni sjálfri, engin ástæða til að aðhyllast afstæðishyggju umfram aðrar hugmyndir. Hún getur auk þess ekki sett fram neina gagnrýni á það að maður lifi algjörlega andstætt hugmyndum hennar, því það að gagnrýna myndi gefa til kynna að það væri hægt að lifa betur eða réttar, og gott og rétt eru merkingarlaus hugtök fyrir afstæðishyggju.
Og það er ekki hægt að aðhyllast neina hálf-afstæðishyggju, að segja það eina sem er gott og rétt er að það sé ekki hægt að segja að neitt annað sé gott eða rétt; með því hefur maður samt leyft tilvist mælikvarða. Það skapar fleiri vandamál en það leysir hver ert þú t.d. að draga mörkin á því yfir hvað mælikvarðar mega gilda? Þú getur ekki rökstutt af hverju þessi eini mælikvarði megi gilda, því rök eru merkingarlaus. Nema rök hafi líka merkingu? Þá erum við farin að færa okkur ansi langt uppá skaftið í því að gefa hlutum mælikvarðaleyfi eftir því sem það hentar okkur. Nei, annaðhvort eru mælikvarðar til eða ekki, það er ekki hægt að aðhyllast svona málamiðlanir útfrá eigin geðþótta.
Afstæðishyggja fellur um sjálfa sig við nánari skoðun. Það er a.m.k. engin ástæða til að aðhyllast hana, ekki einu sinni skv. hennar eigin hugmyndafræði. Uppörvandi, að mínu mati, að sjá að hvöt mannsins til tilgangsleitar samræmist mun betur rökum en afstæðishyggjan.
=Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2008 | 21:49
Ljúfa lífið
Hmmm. Hjólferð í sólskininu þegar er nýbúið að rigna, sausage rolls á la mamma, kiwi og Doctor Who. Veðrið er gott, margir dagar í næsta próf (fjórir eru víst margir), ég komin með vinnu í sumar, og gluggatjöld v.2.0 virka vel (æsispennandi ævintýri mín við að hjóla heim með tvo fermetra af froðuplasti í hvassviðri og það hvernig ég bjó til gluggatjöld með aðstoð þess (froðuplastsins, ekki hvassviðrisins) væru efni í aðra bloggfærslu). Bakaði siðfræðiprófið á föstudaginn sl. (9,5 kalla ég bakstur og kaffi með því), og hugsa að ég hafi sömuleiðis straujað Schleiermacher og Nietzsche á trúarheimspekiprófinu í morgun, þó það sé en óstaðfest tilgáta. Stefnan er að taka svipuð heimilisverk á prófin tvö sem eru eftir (ryksuga díakoníuna og skúra trúfræðina, kannski?), þannig að ætli ég verði ekki að leggjast yfir bækurnar á morgun. En ekki fyrr en á morgun. Í kvöld er lífið bara meiri Doctor Who og svo upp í rúm þar til ég sofna útfrá Wheel of Time. Ljúft.
=Þ.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2008 | 22:14
Slammæfingar og verðandi eiginmaður minn
Jæja. Núna á föstudaginn uppgötvaði ég að það voru ekki nema 6 mánuðir uppá dag þar til ég verð að vera komin í slamm-form. Ef einhver kann einhverjar góðar æfingar til að styrkja hálsvöðvana væru slíkar ábendingar því vel þegnar þann 25. október næstkomandi stefni ég nefnilega á að vera stödd í Laugardalshöllinni að slamma fram á nótt við ljúfan undirleik Nightwish. Já, finnska metalgoðsögnin er að koma til landsins, frétti ég um jólin síðustu, með nýju söngkonuna í farteskinu. Ég sýndi gífurlega stillingu við þessar fréttir, og lét það eiginlega alveg vera að hoppa og syngja fyrr en ég var komin heim til mín (einhverjir muna sjálfsagt eftir svipaðri sjálfstjórn sem ég sýndi þegar ég heyrði að Josh Groban kæmi til landsins; ég gekk pollrólega útaf mannmörgu pósthúsinu áður en ég skríkti síðan af kæti fyrir utan á mannlausu bílastæðinu).
Hér er líklega rétt að huga að þeim sem ekki þekkja átrúnaðargoðin sem ég er að tala um. Þetta myndband (Amaranth) ætti að skýra æsing minn:
Ég vil benda áhugasömum á að þarna gefur að líta framtíðareiginmann minn, Tuomas Holopainen það er þessi síðhærði og bráðlaglegi á hljómborðinu, upphafsmaður Nightwish, höfundur flestra laga þeirra, og heilinn á bak við sveitina. Sérstakur karakter ákvað upphaflega að hann vildi stofna metalhljómsveit með klassískri söngkonu þó enginn hefði gert slíkt áður, síðan að hann vildi nota sinfóníuhljómsveit í metallögum þó enginn hefði gert slíkt áður, og síðan allt í einu að hann vildi sparka klassísku söngkonunni sem hafði gert sveitina svona fræga og fá sér sænska Abba cover-band söngkonu í staðinn. Í hvert einasta skipti sögðu allir að hann væri klikkaður, og í hvert einasta skipti snarvirkaði það. Og í hvert einasta skipti kom hann af stað æði og allir vildu gera eins og Nightwish. Eruði hissa að ég skuli ætla að giftast svona manni? Ég hugsa að tónleikastoppið á Íslandi sé bara yfirskin, geri ráð fyrir að hin raunverulega ástæða sé að hann ætli að biðja mín. Kominn tími til líka.
=Þ.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2008 | 17:36
Narnía og frekari Lewis-pælingar
Ég kom á dögunum höndum yfir bókina Miracles eftir C. S. Lewis. Kærleikur minn til hans hafði kólnað örlítið eftir að við ræddum pistil hans um hjónaband í siðfræði (vil þó taka fram að sú kólnun var þó aldrei meiri en kólnun kærleika manns til foreldra sinna þegar þau fara í taugarnar á manni tímabundin kólnun, en samt kærleikur sem slokknar aldrei) þar talar hann um efni sem hann þekkir ekki (a.m.k. ekki á þessum tímapunkti í lífi sínu, pistillinn er skrifaður áður en hann gifti sig) og beitir rökum sem eru, kannski þess vegna, á sandi reist.
Æ, við getum talað um Lewis og kvenfólk seinna. Það sem ég vildi sagt hafa er að kafli snemma í Miracles blæs nýju lífi í kærleik minn í garð C. S. Lewis. Bókin kom fyrst út 1947, sem er þremur árum áður en Ljónið, nornin og skápurinn kom út fyrst Narníubókanna (1950, fyrir þá sem eru slakir bæði í bókmenntasögu og reikningi). Í 2. kafla Miracles er Lewis í sci-fi stuði og ræðir möguleikann á tilvist annarra heima. Það orðar það einfaldlega enginn eins vel og hann, og hér er því í held sinni málsgreinin sem um ræðir:
In that sense there might be several Natures. This conception must be kept quite distinct from what is commonly called plutality of worlds i.e. different solar systems or different galaxies, island universes existing in widely separated parts of a single space and time. These, however remote, would be parts of the same Nature as our own sun: it and they would be interlocked by being in relations to one another, spatial and temporal relations and causal relations as well. And it is just this reciprocal interlocking within a system which makes it what we call a Nature. Other Natures might not be spatio-temporal at all: or, if any of them were, their space and time would have no spatial or temporal relation to ours. It is just this discontinuity, this failure of interlocking, which would justify us in calling them different Natures. This does not mean that there would be absolutely no relation between them; they would be related by their common derivation from a single Supernatural source. They would, in this respect, be like different novels by a single author; the events in one story have no relation to the events in another except that they are invented by the same author. To find the relation between them you must go right back to the authors mind: there is no cutting across from anything Mr Pickwick says in Pickwick Papers to anything Mrs Gamp hears in Martin Chuzzlewit. Similarly there would be no normal cutting across from an event in one Nature to an event in any other. By a normal relation I mean one which occurs in virtue of the character of the two systems. We have to put in the qualification normal because we do not know in advance that God might not bring two Natures into partial contact at some particular point: that is, He might allow selected events in the one to produce results in the other. There would thus be, at certain points, a partial interlocking; but this would not turn the two Natures into one, for the total reciprocity which makes a Nature would still be lacking, and the anomalous interlockings would arise not from what either system was in itself but from the Divine act which was bringing them together. If this occured each of the two Natures would be supernatural in relation to the other: but the fact of their contact would be supernatural in a more absolute sense not as being beyond this or that Nature but beyond any and every Nature. It would be one kind of miracle. The other kind would be Divine interference not by the bringing together of two Natures, but simply.
-C. S. Lewis, Miracles, 1947, bls. 12-14
Ég hélt eftir fyrsta lestur að mig hlyti að misminna útgáfuártöl bókanna aldrei hefur nokkur maður, hvorki fyrr né síðar, orðað betur hvernig heimar Narníu eiga að virka (skiljanlega kannski, þar sem hann er höfundur þeirra). Heimar sem eru hvorki tengdir í tíma né rúmi; það eina sem þeir eiga sameiginlegt er almáttugur guðdómlegur skapari. Eini möguleikinn á samgöngum milli þessara tveggja heima er fyrir tilstilli þessa skapara. Kviknaði hugmynd Lewis að heimakerfi Narníu eftir þessar vangaveltur? Eða var hann hér að slá fram hugmynd úr barnabók sem hann var með í kollinum?
Óháð því hvort hænan eða eggið kom á undan, þá finnst mér rosalega spennandi að sjá hér svart á hvítu þessa útskýringu hans; ekki bara því hún er gagnleg sem slík, heldur því þetta sýnir aftur hvað Lewis er jafnvel í sínum villtustu fantasíu- og vísindaskáldskapssögum aldrei bara að bulla án þess að hugsa hlutina lógískt í gegn. Afþvíbara er aldrei skýring hjá honum, það er alltaf einhver kenning á bak við allt sem hann lætur gerast. M.a.s. í vísindaskáldskaparþríleiknum sínum (og þar má finna býsna kreisí hluti, get ég sagt ykkur) er hugsunin á bak við hugmyndirnar alltaf hvað ef þetta væri svona? eða við vitum ekki hvernig þetta virkar, hvað ef það virkaði í rauninni svona?.
Skrifaði þessi virti fræðimaður og heimspekingur vísindaskáldskap og fantasíu vegna þess að þannig gat hann komið brjáluðustu kenningum sínum og pælingum frá sér án þess að vera sendur með hraði á hælið? Eða afbar hann bara ekki að senda frá sér nokkuð sem var ekki þaulhugsað og útpælt, ekki einu sinni barnabók? Ég skil satt best að segja báðar tilfinningarnar. En það er bara svo merkilegt að finna þarna þennan fyrirboða Narníubókanna.
=Þ.
PS. Ég vona að ég sé ekki að fara að lenda í fangelsi vegna ritstulds fyrir að birta svona langan texta úr Miracles ... það er bara engin leið að tala um hann nema fólk sé búið að lesa hann. Kaupiði bækur eftir C. S. Lewis, svo mér líði betur.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Talhonjik
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar