5.4.2008 | 21:23
Romantic dates with sensitive gentlemen in Reykjavik - click here!!!
Ef guðfræðidæmið gengur ekki upp er ég að hugsa um að reyna fyrir mér sem manneskja sem finnur upp þessar pirrandi netauglýsingar sem eru allsstaðar. Fyrir það fyrsta eru þær áhugavert fyrirbæri fyrir þær sakir að þær eru mögulega það eina í öllum netheiminum af öllu sem fyrirfinnst þar (og það finnst ALLT á netinu. Þegar ég segi það meina ég A L L T) sem nákvæmlega 100% allra veraldarvefsgesta eru sammála um. Þú getur alltaf fundið einhvern sem finnst tiltekin hljómsveit ömurleg og annan sem finnst hún æðisleg, eða einn sem setur kakóduftið á undan mjólkinni og annan sem setur mjólkina fyrst en ég get með fullvissu bókað það að það finnst ekki nokkur maður á netinu sem finnst pop-up auglýsingar skemmtilegar. Um það mál ríkir alþjóðleg sátt. Ef maður er einhverntímann niðurkominn í fjandsamlegu landi, umkringdur vopnuðum óvinum, og líf manns veltur á því að maður segi eitthvað sem þeir munu vera algjörlega sammála, þá er ekki slæm hugmynd að segja Úff hvað ég hata pop-up auglýsingar. Finnst ykkur þær ekki ömurlegar?.
Nú, semsagt. Í slíkum ferli myndi ég losna við alla óvissu um hvað fólki fyndist um mig (það myndu allir hata mig, undantekningalaust). Svo hef ég líka komið auga á nokkra ónýtta fleti markaðarins ... núna áðan ýtti ég t.d. næstum á auglýsingatengil því hann var svo málfræðilega rangur. Ég hreinlega sá rautt, ruglaðist í rýminu og vissi ekki hvað ég gerði þar til það var næstum orðið of seint. Það má semsagt kanna markaðinn fyrir auglýsingar miðaðar við málfræði- og stafsetningarnasista: ég veit t.d. ekki hvort ég gæti staðist tengilinn is youre grammer good? Corect me!!!!!!!, þó ég vissi að það væri rugl tengill. Svona lagað togar einfaldlega í einhverja sársaukafulla strengi djúpt í sálarfylgsnum mínum ég er örugglega ekki eina manneskjan sem væri hægt að særa svo djúpu málfarssári að við getum ekki annað gert en slegið frá okkur í örvæntingu með því að ýta á tengilinn.
Síðan er það kynjamiðunin. Ég veit ekki hvort karlmenn eru líklegri til að falla fyrir einhverjum svona auglýsingum, en það er alveg merkilegt hversu oft ég fæ boð um heitar konur í Reykjavík sem vilja sofa hjá mér í kvöld (eru lesbíur í einhverskonar útrás? Ég er að sjálfsögðu upp með mér, en ), og hversu sjaldan (þ.e. aldrei) boð um heita karlmenn í Reykjavík sem vilja bjóða mér í rómantískan kvöldverð í kvöld. Þetta er alveg góður helmingur af markaðnum sem auglýsendur eru að horfa framhjá! Ég meina, sjáið þetta fyrir ykkur: ég er að vafra á vefnum, og kem að sjálfsögðu fyrr en síðar inn á síðu með auglýsingabanner. Við hliðina á auglýsingunni um að mín bíði skilaboð frá brjóstgóðri, nærfataklæddri konu sem kallar sig hot4u23 er önnur auglýsing: mín bíða líka skilaboð um að PrinceCharming25 (hár, dökkur og myndarlegur) sé að leita að einhverjum til að bjóða á rómantíska gamanmynd og deila tilfinningum sínum með. Í staðinn fyrir að beinast að 50% markaðsins beinist þessi auglýsing að 100% hans! Ég væri geðveikur auglýsingahönnuður.
=Þ.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.3.2008 | 18:09
Af Þóru og Gunnu
Ég geri mér grein fyrir því að ekki eru allir jafn lánsamir í þessum heimi. Sumt fólk er t.d. svo óheppið að því hefur ekki hlotnast sú ánægja að fá að verða vitni að samtali milli mín og Gunnu. Hér fylgir því listi, alls ekki tæmandi en sem gefur þó ágætis dæmi, með nokkrum þeim efnum sem við Gunna ræddum í nýafstaðinni ferð okkar í Bónus og á kaffihús.
-Jólaskrautið sem heitir englahár hvernig lítur það út? (við rifumst lengi um það, og enduðum á að fara í jólabúðina á Laugaveginum og spyrja. Náunginn ætlaði að láta verslunarstjórann senda okkur tölvupóst um málið)
-Skiptir útlit matar máli? Þ.e.a.s., bragðast rækjur eins í myrkri og ljósi? Mætti nota hvítlauk í stað sveppa, eða sykurpúða? Þetta er mjög líkt í útliti.
-Nöfn gefa fólki ákveðin einkenni (Bubbi gefur t.d. krúttleika, en Tim hálfgerðan aumingjaskap)
-Hvernig myndi kaffihús sem seldi kalt kaffi virka? Væri það gott ef maður hefði vanist því?
-Er hægt að vera áhugamanneskja um höfuðlag? Myndi slík manneskja ræna sérlega fallegum hauskúpum og safna þeim? Og í framhaldi af því ...
-Hvernig myndi maður framkvæma það að ræna hauskúpu úr lifandi manneskju? Og hverjar væru afleiðingar þess?
-Kórverk þar sem allir eru látnir skipta um rödd á síðustu stundu kúl hugmynd eða ekki? (við gerðum línurit til skýringar þessum pælingum)
-Væri gott að vera klofinn persónuleiki uppá skólann að gera? Einn persónuleiki mætir í tíma, þeir skiptast á að læra o.s.frv.
-Er hægt að hafa annan uppruna en foreldrar sínir (t.d. rússneskir foreldrar en íslenskt barn)?
-Er auðveldara að kyngreina stór, flókin dýr (eins og kýr) eða lítil, einföld dýr (eins og bifdýr)?
-Væri hægt að finna upp sjónvarp/útvarp/síma með lykt? Hverjir væru kostir og gallar þess?
-Hvaða orð er best að nota um einhvern sem veit mikið um flugvélar?
Einnig höfum við nýlega rætt mikilvægar spurningar eins og hvernig má komast til meginlands Evrópu frá Íslandi með hestvagni?, hvaða samfélagslegu reglur myndu gilda um giftingu manna og hunda?, og er hægt að fara fram úr sjálfum sér, bókstaflega?. Þess má síðan geta að við getum ekki spilað Scrabble nema finna fyrst hlutlausan dómara með stóra orðabók, okkur er bannað að vera saman í liði í Pictionary/Actionary, og við höfðum lengi sama lykilorð í tölvunum okkar, sama handahófsvalda orðið með sömu viljandi gerðu stafsetningarvillunni, án þess að hafa nokkurskonar samráð um það. Móðir mín er hætt að hlusta þegar við tölum saman fyrir framan hana, því við sleppum svo mörgum orðum og notum svo mörg heimatilbúin orðatiltæki (stafla teningum, brjóta fiðluna, jollíast, sleikja hamstur o.fl) að við erum óskiljanlegar.
Við hyggjumst flytja í sömu íbúð næsta haust - ég á von á að þróun tungumáls okkar verði komin það langt að það geti flokkast sem nýmál eða mállýska uppúr janúarlokum 2009.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.3.2008 | 11:43
Lundúnarferðasaga - lygi líkust
Viðvörun: Eftirfarandi ferðasaga getur leitt til ferðatregðu og þunglyndis, og vakið klinískan ótta við samgöngukerfi Lundúnaborgar. Atburðirnir sem hér er lýst voru ekki sviðsettir.
Núna í janúar var ég hjá ömmu minni á Englandi, og skrapp yfir helgi til Manchester að heimsækja vini. Það var minnsta mál í heimi að komast þangað ... en sagan af heimferð minni er harmleikur af þeirri gráðu að ég þori ekki annað en að láta skýringarmyndir fylgja ef lesendur eiga að geta fylgst með flækjunum.
Hefst hér heimferðar saga Þóru, harmleikur í alltof mörgum þáttum
Nú, gamanið byrjaði ekki fyrr en ég var komin inn í Lundúnaborg. Lestarferðin frá Manchester gekk eins og í sögu, engar tafir eða leiðindi. Ég hafði farið seint að sofa og vaknað snemma, en svaf samt ekki í lestinni ég hugsaði að ég myndi bara gera það í lestinni út úr London (úff ... ). Planið var einfalt: lestin frá Manchester stoppaði á Euston-stöð í London þaðan tæki ég neðanjarðarlestina til Liverpool Street-stöðvar, og þaðan lestina heim út úr London.
En þegar til London var komið reisti fyrsta vandamálið sinn ljóta haus; Liverpool Street var lokuð vegna einhverra framkvæmda. Og það eru engar aðrar stöðvar í London sem fara í áttina heim til mín. Obbobbobb ...
Ég dey nú samt ekki ráðalaus þó einni lestarstöð sé lokað. Ég vissi að lestin mín út úr London stoppaði á Stratford-stöð á leiðinni út úr borginni, og til Stratford er hægt að komast með neðanjarðarlestinni. Það var töluverður krókur að fara þangað frá Euston, en það var alveg mögulegt. Ég lagði því af stað í átt til Stratford.
Ferðin með Northern-línunni (svarta strikið) gekk hægt, sem mér fannst undarlegt, þar sem það var sunnudagur og það átti ekki að vera mikið álag á neðanjarðarlestakerfinu á þessum tíma. En ég komst nokkuð vandræðalaust yfir í Jubilee-línuna (græna strikið). Sú lína gekk enn hægar. Að lokum stoppaði lestin bara alveg á stöð úti í rassgati. Þar var hún stopp leeengi, a.m.k. 10 mínútur fólk var farið að fara út. Þá kom loks tilkynning: vegna bilunar í samskiptabúnaði yrði Jubilee-línunni nú lokað. Farþegar á þeirri línu voru beðnir að fara úr lestunum á þeirri stöð sem þeir voru á. Ég neyddist til að gera það; þar sem engin önnur lína en Jubilee stoppaði á þessari stöð var ég því föst á neðanjarðarlestarstöð einhversstaðar í London. Það eina sem ég var viss um varðandi hvar í andskotanum ég væri var að ég væri ekki nálægt Stratford og lestinni heim.
Það var farið að reyna virkilega á óbilandi trú mín á samgöngukerfi Lundúnaborgar. En ég neitaði að trúa því að ég væri föst, og fór út af stöðinni. Eftir nokkra umhugsun og kortaskoðun komst ég að því að ég var ekkert voðalega langt frá Docklands Light Railway-stöð (það er n.k. ofanjarðar-neðanjarðarlestarkerfi innan ákveðins svæðis borgarinnar). Og það sem meira er, ég vissi að síðasta stopp DLR-línunnar (bláa strikið) væri Stratford ... ég náði mér því í DLR-miða og beið í korter eftir þeirri mest hægfara lest sem ég hef komið í síðan í Lególandi. En hún fór a.m.k. í rétta átt.
Ég hefði alveg verið sátt við að vandræðum mínum hefði verið lokið hér. Slíkri lukku átti ég þó ekki að fagna. Nokkrum stoppum frá Stratford stoppaði DLR-vagninn. Glöggir lesendur munu því miður geta ímyndað sér innihald tilkynningarinnar sem barst okkur þreyttum farþegunum til eyrna: DLR-lestin færi ekki lengra í þessa átt vegna framkvæmda. Farþegar væru vinsamlegast beðnir að fara út hér. Ég var aftur föst á stöð einhversstaðar í Hvergilandi, þar sem engin lest nema DLR stoppaði.
Hér var ég farin að óska þess að ég hefði lagt mig í lestinni frá Manchester ég var dauðþreytt, svöng, ákaflega pirruð og einstaklega föst. Ég vissi að ég var mun nær Stratford en ég hafði áður verið, en ekki það nálægt að ég treysti mér til að labba ein í myrkrinu (það var orðið framorðið á þessum tímapunkti ævintýrisins) gegnum hverfi sem ég hafði aldrei áður komið í. Ég rölti út af stöðinni, og fór að vinna í að finna mér strætó sem færi í rétta átt. Í fylgd hóps annarra pirraðra Stratford-fara tókst það á endanum, og við komumst í strætó sem fór á Stratford-stöð (strætóinn var ekki double decker. Þegar hér var komið við sögu hefði mér samt verið sama þó hann hefði verið þaklaus yfirleitt, eða hestdreginn, ef hann hefði komið mér í rétta átt).
Stratford, Stratford. Aldrei hafði þessi austur-Lundúnastöð verið jafn fögur í augum mínum. Allt ferðalagið hafði ég verið í reglulegu símasambandi við ömmu mína (sem beið eftir mér heima, og hefði dáið þrisvar af áhyggjum yfir seinkun minni ef ég hefði ekki hringt reglulega mér var búið að seinka um nokkra klukkutíma hérna). Allt í kringum mig á Stratford var þreytulegt fólk í símanum, og allir sögðu einhverskonar útgáfu af því sama: mér seinkaði, ég veit ekki hvað er í gangi í neðanjarðarlestunum, þú getur ekki ÍMYNDAÐ þér hverju ég er búin(n) að lenda í .... Ég fann rétta lest.
Sagan, ótrúlegt en satt, heldur áfram. Þetta var rétt lest. En vegna einhverra framkvæmda á teinunum fór hún ekki alla leið til Walton, heldur stoppaði í Marks Tey. Til viðmiðs má ímynda sér að rútan frá Akureyri færi af einhverjum ástæðum ekki alla leið til Reykjavíkur, heldur stoppaði í Borgarnesi og færi ekki lengra.
Ég var ekki hress. Ó, svo mikið ekki hress. En Borgarnes, þó það sé ekki Reykjavík, er allavega fjandanum nær Reykjavík en Akureyri. Ég fór þess vegna í lestina, því hvað átti ég að gera? Setjast niður og grenja?
Til Marks Tey komst ég á endanum. Þar skoðaði ég málin í ljós kom að ég gat tekið rútu frá Marks Tey til Walton, ef ég nennti að bíða í klukkutíma (ég hafði rétt misst af síðustu rútu). Ég hafði ekki val um að nenna því eða ekki; ég beið í klukkutíma á stöðinni, og rútan kom á endanum. Hún var double decker, en mér var eiginlega sama. Ég sat niðri því ég var eini farþeginn, og ég vildi ekki hætta á að bílstjórinn héldi að rútan væri orðin tóm og færi bara heim til sín og læsti mig inni (miðað við hvernig dagurinn hafði gengið var það alveg raunhæf hætta). Ég var of þreytt til að vera almennilega pirruð yfir því að rútubílstjórinn þurfti að stoppa á svona 40 milljón stöðvum og bíða í 10-15 mínútur á hverri, þó klukkan væri orðin 10-11 að kvöldi og engir farþegar sjáanlegir, og spjalla við félaga sinn á hverri lestarstöð fyrir sig sem við stoppuðum á. Loksins sniglaðist hann inn til Walton. Ég trúði því varla að ég hefði komist á leiðarenda; undir lokin átti ég alveg eins von á að rútunni yrði rænt af geimverum.
Ég hafði ætlað að skreppa til London í búðir næsta dag. Það gerði ég ekki.
=Þ.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2008 | 22:42
Stumble - bezt í heimi!
Internetið var skemmtilegt. Þangað til í morgun. Þá rakst ég á þessa síðu, StumbleUpon. Þá hætti netið að vera skemmtilegt og varð þess í stað brjálæðislega frábærlega skemmtilegt. Það þurfa allir að fá sér Stumble, núna. Ég er búin að vera að skemmta mér við það bróðurpartinn af deginum ... hef þetta ekki lengra, ég er farin að leika mér meira í Stumble.
=Þ.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2008 | 16:05
Strákar, stelpur og hlutverkaspil
ATH!
Viðvörun: Að lesa bloggfærslu er góð skemmtun. Eftirfarandi texti inniheldur nördisma á háu stigi, og er ekki við hæfi þeirra sem ekki eru slíku vanir. Viðkvæmum er bent á að sleppa lestri eftirfarandi bloggfærslu ef þeir eru haldnir nördafælni af nokkru tagi.
Takk fyrir.
Það hefur varla farið framhjá neinum sem er á annað borð inni í hlutverkaspilum að það er yfirleitt talin vera karlaíþrótt, þó til séu goðsögur um kvenkyns spilara, og jafnvel til fólk sem segist hafa spilað með slíkum. Sem kvenkyns spilari með margra ára reynslu af spilun í stelpuhópum (þ.e.a.s. hópum þar sem ALLIR spilarar eru stelpur) auk blandaðra hópa, lít ég í ljósi þess á það sem skyldu mína að koma nokkrum hlutum á hreint í þessum málum.
Fyrst nokkrar urban legends um kvenspilara sem eru ekki sannar:
-Kvenspilarar eru ekki til
Ósatt, ég afsanna þetta t.d. með tilvist minni.
-Stelpur spila bara bard og sorceress
Öh, nei. Ekki frekar en að strákar spili bara warrior og barbarian. Stelpur eru kannski líklegri, þegar þær byrja, til að velja class sem líkist því sem þær gætu ímyndað sér að vera í fantasíuheimi ... en strákar eru ekkert öðruvísi með það. Og eftir að fólk er kominn inn í spilið er allur gangur á því hvaða class það spilar. Sjálf hef ég spilað karlkyns half-orc barbarian, sem var geðveikt. Þó ég hafi líka spilað kvenkyns elven sorceress, auðvitað. Sem var alveg jafn fínt.
-Stelpur hugsa bara um að láta karakterana sína verða ástfangna og giftast
Aftur, öh nei. Þessi mýta kemur kannski til af því að stelpur virðast hugsa svolítið meira um samskipti persónanna, og afleiðingar samskiptanna strákar eru líklegri til að sjá karakterinn sinn sem einhvern sem berst, galdrar og leysir þrautir, en ekki einhvern sem eignast vini, fer í fýlu við fólk og á unnustu sem bíður eftir sér heima. Þó það sé aftur allur gangur á því.
-Stelpur vilja ekki spila bardaga
Stelpur vilja ekki spila bardaga eftir bardaga eftir bardaga, sem er allt annað. Þær verða yfirleitt fyrr þreyttar á að lemja gaura í hausinn með stórri kylfu, en það er ekki það sama og að segja að þær vilji enga bardaga spila. Það er ágætt að fá að stunda smá ofbeldi, bara ekki stöðugt.
Síðan nokkrar staðreyndir sem virðast gilda um kvenspilara:
-Hack&Slash er u.þ.b. 95% meira hjá karlkyns spilurum
Sparka niður hurðina. Drepa. Loota. Repeat ad nauseam. Nei, þetta kemstu ekki upp með í stelpuhóp. Ef þú vilt drepa-loota-drepa-loota-drepa geturðu bara spilað tölvuleiki, nóg til af leikjum með slíku þema.
-Samskipti persóna eru u.þ.b. 95% meiri hjá kvenkyns spilurum
Hver er karakterinn þinn? Hvað finnst honum um hina karakterana, og þá sem þau mæta? Myndi hann vingast við þennan, myndi hann reyna að breyta þessum, yrði hann hrifinn af þessum? Sem kvenkyns stjórnandi freistast ég oft til að gefa XP fyrir það þegar spilarar gera karakterinn sinn að alvöru persónu sem á í samskiptum við aðrar persónur, og hef tekið eftir því að stelpum virðist finnast þetta mun sjálfsagðari hluti spilsins en strákum.
-Brawn vs. brain
Það fer auðvitað eftir spilaranum og karakternum, en á heildina litið eru strákar líklegri til að leysa vandamál með við ambushum hann og berjum hann. Stelpur eru aftur á móti líklegri til að leysa þau með við plötum hann svona, notum þennan galdur og þennan, og yfirheyrum hann síðan þegar hann er varnarlaus. Sem er skemmtilegt þegar stjórnandinn er karlkyns og allir spilararnir kvenkyns (eða vice versa), og gera alltaf allt annað en stjórnandinn á von á ...
-Its not fair!
Ef hegðun einhverrar persónu kemur illa niður á hinum er líklegt að viðbrögð strákahóps og stelpuhóps verði ólík. Strákarnir munu veifa frösum á borð við survival of the fittest, og málið er dautt og gleymt. Stelpurnar, aftur á móti, eru mun líklegri til að stoppa og ræða það hvort ætti að breyta hegðuninni í þágu hópsins. Og málið gleymist svo sannarlega ekki fljótt ef einhver verður fúll ... stelpur backstabba.
-Vistir
Strákahópur þarf aldrei að óttast að það sé ekki til nógu mikið snakk á spilafundinum handa öllum (reyndar þarf strákahópur yfirleitt ekki að óttast að það sé ekki til nógu mikið snakk á spilafundinum handa öllum íbúum Vestfjarða, ef því er að skipta). Hins vegar er í hæsta máta ólíklegt að strákahópur hafi fund þar sem allir mæta með heimabakað ... sem stelpuhópar eru mun líklegri til að gera. Möffins og lakkrísmarens, namm.
=Þ21.2.2008 | 23:22
Þolinmæði sr. Svavars Alfreðs
Ef ég væri með hatt myndi ég taka ofan fyrir sr. Svavari Alfreð Jónssyni. Það virðist vera samdóma álit ýmissa herramanna að athugasemdakerfi bloggs sérans sé ágætis völlur til skotæfinga í orðaformi, og virðist þar skipta litlu máli hvað Svavar lætur út úr sér. Ef presturinn myndi voga sér að staðhæfa að honum þætti t.a.m. kaffi ágætt, yrði hann blammaður niður á stundinni; einn myndi neita að taka þessa staðhæfingu gilda þar til Svavar kæmi til skýringar og sönnunar með tölur um kaffineyslu sína síðustu árin, annar myndi ásaka hann um tillitsleysi við þá sem þykir te betra, sá þriðji biðja Svavar að útskýra þessa kaffidrykkju sína í ljósi þekktra neikvæðra áhrifa kaffis á líkamann, og sá fjórði myndi láta ljós sitt skína með einhverri smellinni athugasemd um gáfnafar kaffidrykkjumanna. Ef Svavar kæmi ekki með umbeðin rök, sannanir og skífurit máli sínu til stuðnings yrði hann ásakaður um hugleysi og almennan aumingjaskap; svona eruði allir, þessir kaffidrykkjumenn!.
Þrátt fyrir þessa skotglöðu pörupilta bloggar Svavar enn. Hvaðan kemur honum þolinmæðin? Það væri gaman að vita. Ég er kannski ekki sammála honum í öllu, en fyrir geysilegri þolinmæði hans ber ég tvímælalaust gífurlega virðingu. Áfram Svavar!
=Þ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.2.2008 | 19:50
Myndirnar hennar Huldu og lestrarlistar
Alveg ótrúlega hæfileikarík stelpa hún Hulda Hólmkelsdóttir, kórHuldan mín - skoðið ljósmyndirnar hennar og segið mér að þær séu margar 15 ára stelpurnar sem eru komnar með svona skilning á myndmiðlinum. Svo ég haldi áfram að tjá aðdáun mína á Huldu, þá má einnig heyra hana syngja, sem er engu síðri skemmtun.
Ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir því hversu mikinn lestur ég er búin að koma mér í fyrr en ég fór að velta því fyrir mér hvers vegna ég virtist aldrei gera neitt nema lesa en ætti samt alltaf svo mikið eftir að lesa, og gerði lista. Fjórir listar, hver öðrum skemmtilegri:
Bækur sem ég er að lesa því skólinn segir það:
Magnús Jónsson Saga kristinnar kirkju
M. S. Lausten Kirkehistorie
Sigurjón Árni Eyjólfsson Guðfræði Marteins Lúthers
Sigurjón Árni Eyjólfsson Kristin siðfræði
Sigurjón Árni Eyjólfsson Tilvist, trú og tilgangur (já, maðurinn kennir mér)
G. Skirbekk og N. Gilje Heimspekisaga
S. Kierkegaard Uggur og ótti
Alister McGrath Historical Theology
Einar Sigurbjörnsson Kirkjan játar
G. Bexell og C. Grenholm Siðfræði af sjónarhóli guðfr. og hsp.
H. K. Nielsen Han elskede os først
J. M. Barnett The Diaconate
Bækur sem ég er að lesa mér til aukinnar fræðslu og skemmtunar:
Khaled Hosseini Flugdrekahlauparinn
Keith Ward Is Religion Dangerous?
Brian Davies The Reality of God and the Problem of Evil
Iain Banks The Steep Approach to Carbadale
Alister McGrath Christian Theology
C. S. Lewis Timeless at Heart
C. S. Lewis The Problem of Pain
Játningar Ágústínusar
Einar Sigurbjörnsson Credo
Bækur sem ég er að endurlesa (kannski ekki góð hugmynd):
Terry Goodkind Wizards First Rule
Mercedes Lackey The Serpents Shadow
Astrid Lindgren Ronja ræningjadóttir
Sören Olsson og Anders Jacobsson Áhyggjur Berts (já, í alvörunni)
Bækur sem mig langar að lesa:
D. Cowan og D. Bromley Cults and New Religions
Francis Schaeffer The God Who Is There o.fl.
Scott Lynch The Gentleman Bastard serían
Guy Gavriel Kay Tigana o.fl.
Franco Ferrucci The Life Of God As Told By Himself
Platón Kríton o.fl.
George R. R. Martin Song of Ice and Fire serían
Jostein Gaarder Veröld Soffíu (þ.e.a.s. mig langar að endurlesa hana)
Semsagt, 33 bækur eða bókaseríur sem eru einhversstaðar á lestrarlistanum mínum. Og þetta eru bara þær sem ég mundi eftir, ég veit að það eru t.d. fleiri sem mig langar að lesa. Má ég fá nokkra aukaklukkutíma í sólarhringinn minn? Ég andvarpa þungt í hvert skipti sem einhver segir "ég var að lesa bók sem ég VEIT að þú munt vilja lesa!".
-Þ.
P.S. Alls ekki skilja þetta sem svo að ég vilji ekki að fólk mæli við bókum við mig. Ég fíla það og þrái! Ég andvarpa kannski, en komið endilega með fleiri bókameðmæli!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.2.2008 | 22:15
Matseðill Kartöfluvinafélagsins
Ef gerð væri skoðanakönnun á því hvaða Íslending almenningur teldi ólíklegastan til að stunda tilraunaeldamennsku yrði ég væntanlega einhversstaðar í topp 10-15. Það er í ljósi þess gaman að segja frá því að síðastliðna viku hef ég fundið upp hvorki fleiri né færri en 3 uppskriftir, alveg sjálf. Erfiðleikastig þeirra og innihald endurspegla matreiðsluhæfileikastig mitt (þ.e. einhversstaðar á milli Ég Borða Bara Hjá Mömmu og Latur Piparsveinn), en eru furðu góðar miðað við einfaldleika, þó að því gefnu að manni þyki kartöflur góðar. Uppskriftirnar eru svohljóðandi:*
Kartöflubræðingur:
Innihald: Kartöflur, skinka, ostur, krydd
1) Skerðu kartöflur í teninga. Steiktu umrædda teninga á pönnu. Hættu við þegar þú sérð að þú nennir þessu ómögulega svona þetta tekur of langan tíma, og taktu teningana úr pönnunni.
2) Skerðu skinku í strimla og rífðu ost.
3) Settu kartöfluteningana, skinkuna og ostinn saman í eldfast mót. Kryddaðu. Settu meiri ost yfir. Þegar þér finnst þú hafa sett nægan ost yfir, settu þá meiri ost.
4) Settu þetta í ofninn þar til kartöflurnar eru ekki harðar lengur.
Kartöflustappa á la Þóra:
Innihald: Kartöflur, skinka, ostur, krydd
1) Sjóddu kartöflur. ATH: Þetta tekur mun lengri tíma en þú heldur.
2) Byrjaðu að flysja kartöflurnar. Uppgötvaðu að þær eru miklu heitari en þú hélst. Skelltu þeim því út í snjóinn úti á svölum. Taktu þær inn og kláraðu að flysja þær.
3) Skerðu skinku í strimla og rífðu ost.
4) Stappaðu kartöflurnar saman við ostinn og skinkuna. Kryddaðu.
Kartöflukökur:
Innihald: Kartöflur, skinka, ostur, krydd
1) Sjóddu kartöflur. ATH: Þetta tekur mun lengri tíma en þú heldur.
2) Byrjaðu að flysja kartöflurnar. Uppgötvaðu að þær eru miklu heitari en þú hélst. Skelltu þeim því út í snjóinn úti á svölum. Taktu þær inn og kláraðu að flysja þær.
3) Skerðu skinku í strimla og rífðu ost.
4) Stappaðu kartöflurnar saman við ostinn og skinkuna. Kryddaðu.
5) Kveiktu á ofninum (ATH: Þetta tekur líka óhemju tíma) og settu bökunarpappír á plötu. Taktu kartöflustöppuna og gerðu úr henni smákökur á plötuna. Settu meiri ost ofan á kökurnar.
6) Settu plötuna í ofninn. Taktu úr þegar kökurnar eru orðnar svolítið dekkri en þær voru.
*ATH: Í allar þessar uppskriftir má bæta að vild skrefinu a) Settu meiri ost.
Ég læt vita þegar ég verð búin að finna upp nógu margar piparsveina-kartöfluuppskriftir til að ég geti haldið matarboð sem samanstendur eingöngu af réttum búnum til úr kartöflum, skinku, osti og kryddi. Dagsetning þessa stofnfundar Kartöfluvinafélagsins auglýst síðar.
=Þ.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.2.2008 | 14:23
Ástarsaga frá Tjörninni
Ástarsaga frá Tjörninni
Framhjá Tjörninni skokkar Ella
Algjör mega Sautján-gella
Skransar þegar andarsteggur
stekkur uppúr og í hana leggur.
Elsku Ella, kvakar hann,
hvað ég er feginn að ég þig fann!
Ég sé þig svo oft á hlaupum hér
Þú veist ekki hvað ég er skotinn í þér!
Æpoddinn Ella úr eyrum ei tók
En arkaði áfram og hraðann jók
Steggurinn elti með tárin í augum
Og Ellu tók gjörsamlega á taugum.
Ástin, það er aðeins þú sem ég vil,
Góða, segðu að þú sjáir þó til!
Því þú færð aldrei að losna við mig
Fyrr en ég fæ að kyssa þig!
Ó mæ gad, Ella að lokum stundi,
er þolinmæðin að síðustu hrundi.
Komdu þá hérna, árans önd;
Einn koss og svo siglirðu leið og lönd!
Svo enginn sæi, í skjóli trés,
Smellti hún kossi á andar fés
En síðan undrun Ellu fyllti
Steggurinn varð að myndarpilti!
Ella hætti öllu voli
öndin orðin feikna foli!
Ástsjúk féll hún í hans arma
gleðitárin blikandi á hvarma.
En folinn Ellu frá sér henti
svo hissa hún á jörðinni lenti.
Ástin, Ella spurði smeyk,
hvað meinarðu með þessum leik?
Úr vasanum folinn spegil dró
Skoðaði sig og glaður hló
Hnyklaði vöðvana yfir sig spenntur
og brosti hvít- og fagurtenntur.
Beibí, sagði hann, þú leystir mig,
En ég er of góður fyrir þig!
Þú ert bara ekki nógu flott
Sjáðu hvað ég er orðinn hot!
Speglinum stakk hann aftur í vasa
Tékkaði hárið og hélt á Nasa
Ellu orðlaust eftir lét -
ein við Tjörnina sat hún og grét.
-Þóra Ingvarsdóttir
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.1.2008 | 10:13
Sannleikurinn um Jones og Lewis
Eins og flestir sem þekkja mig vita er ég mikill aðdáandi C. S. Lewis. Margir vita líka að ég er ákaflega takmarkaður aðdáandi Gareth Jones, mannsins sem skrifaði hina hræðilega þreytandi Christian Theology, aðferðafræðibókina okkar frá því á haustönninni. Jones gæti líklega komið hlutunum ágætlega frá sér, en vandar sig svo við að fara varlega að lesendum sínum og öllum þeim hugmyndum sem þeir gætu mögulega haft, að hann nær varla að koma sínum eigin hugmyndum frá sér. Ég brosti þess vegna við lesturinn á bók Jones þegar ég sá speglast hjá honum, svo gott sem orðrétt, skoðun sem Lewis hæðist að ... það er næstum kómískt hversu auðveldlega Jones gæti verið maðurinn sem Screwtape talar um:
Lewis (úr skáldsögunni The Screwtape Letters, þar sem eldri djöfull ráðleggur yngri djöfli um hvernig sé best að brengla hugsun og hugmyndir mannsins): "He doesnt think of doctrines as primarily true or false, but as academic or practical, outworn or contemporary, conventional or ruthless. Jargon, not argument, is your best ally ... Dont waste time trying to make him think that materialism is true!"
Jones (úr Christian Theology; þeir feitletra m.a.s. sama orð!): "... because it is impossible to identify a position from which one might verify or falsify, once and for all, whether or not, for example, the doctrine of the Trinity is true. What this question really means, of course, is Is the doctrine of the Trinity accurate? ... truth itself is contextual, and therefore determined for a given community by a given set of circumstances."
Það er samt líklega best að hafa allan varann á og taka fram að ég er ekki með þessu að segja að Jones sé andsetinn, eða sendur af djöflinum. Ég er heldur ekki að segja að ég sé fylgjandi hugmyndinni um að allt sé annaðhvort-eða sannleikur; ég er reyndar nær þeirri skoðun en afstæðishugmynd Jones, en það er önnur saga. Ég skelli bara upp þessum tilvitnunum vegna dásamlegs skemmtanagildis þeirra, eða réttara sagt skemmtanagildis þess hversu óhugnanlega líkar þær eru!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Talhonjik
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar