Færsluflokkur: Bloggar

Haustið og áramótaheit 2008

Nú, lítið af bloggum síðasta haust. Ástæður fyrir því voru:

 

-Full tafla af einingum í HÍ, sem innihélt ...

-... forngrísku

-Stjórn nemendafélags guðfræðinema

-Stjórn málfundafélagsins Gladius

-Stjórn kórs guðfræðinema

-Mótettukór Hallgrímskirkju

-Barnadeild Debenhams

-D&D spilahópur (tveir svoleiðis)

-Miðaldafélagið SCA-Klakavirki

-Félagslíf (já, ógn og skelfing þetta félagslíf)

-Facebook (í rauninni án mikils gríns)

 

Og þá að hinum árlegu nýársheitum fyrir árið 2008 (já, 2008, ekki 2009. Það er eftir ár):

 

*Komast í gegnum fyrsta árið í háskóla

*Finna mér svala vinnu með skólanum

*Fara í Evrópuferð með vinkonum mínum

*Fara til Ítalíu

*Fá að búa með vinkonu minni

*Verða formlega kórstjóri (kórstýra?) með alvöru kór

*Læra forngrísku

*Læra að elda HVAÐ SEM ER úr kartöflum

*Æfa skylmingar

*Eignast helling af nýjum, skemmtilegum vinum

 

Og viti menn – 10 af 10 fyrir áramótaheitin, annað árið í röð! Það borgar sig að strengja áramótaheitin eftirá.


Sumarið og haustið

Ég blogga ekki þessa dagana, vegna þess að ég hef frá engu að segja. Lífið gengur út á að vakna, selja fólki barnaföt í Debenhams, koma heim, lesa/horfa á sjónvarp/spila tölvuleiki, og sofna. Einn frídagur í viku sem fer þá í tiltekt og Bónusferð. Ekki misskilja mig, ég elska vinnuna mína; þetta er bara svo mikið einhæfara en ég á að venjast. Svona er lífið þegar er enginn skóli.

Ástand mitt utan skóla er sorgleg saga. Viku eftir próflok hafði ég það fínt. Eftir tvær vikur hefði ég verið alveg til í að fara aftur í skólann. Eftir þrjár var ég komin vel á veg með fráhvarfseinkenni, og held aðeins aftur af yfirþyrmandi þunglyndi nokkurskonar and-skólaleiða míns með því að vera með guðfræðibækur á náttborðinu. Í sumar hef ég því fræðst allnokkuð um hugmyndina um höfuðsyndirnar sjö, guðfræði Freuds, sögu fyrstu krossferðarinnar o.fl., auk þess að vera byrjuð að glugga í grískuna. Sorgleg? Nei, þetta er bara áhugamál mitt. Ég er bara svo heppin að það er líka það sem ég er að læra á veturna!

England eftir tvær vikur, Ítalía eftir rúmar þrjár. Undirbúningur Interrail-ferðarinnar gengur (hratt þegar maður andar ofan í hálsmálið á fólki en annars töluvert hægar), en planið er á heildina litið nokkurnveginn komið - Ítalía-Slóvenía-Ungverjaland-Slóvakía-Austurríki-Þýskaland. Sendi póstkort ef ég ákveð að setjast að í Slóveníu og gerast geitabóndi. Hví ekki?

Síðan er það heimkoma og skólasetning. Og McGrath, einn af þremur mönnum í lífi mínu (hinir tveir eru að sjálfsögðu C. S. Lewis og Tuomas Holopainen), á leið til landsins í september! Við Jakob bekkjarbróðir höfum planað að sitja í fremstu röð á öllum fyrirlestrunum hans og redda okkur backstage-pössum. 

Hér sést kappinn. Geislandi af guðfræðivisku!
 
=Þ.

 


Ljúfa lífið

Hmmm. Hjólferð í sólskininu þegar er nýbúið að rigna, sausage rolls á la mamma, kiwi og Doctor Who. Veðrið er gott, margir dagar í næsta próf (fjórir eru víst margir), ég komin með vinnu í sumar, og gluggatjöld v.2.0 virka vel (æsispennandi ævintýri mín við að hjóla heim með tvo fermetra af froðuplasti í hvassviðri og það hvernig ég bjó til gluggatjöld með aðstoð þess (froðuplastsins, ekki hvassviðrisins) væru efni í aðra bloggfærslu). Bakaði siðfræðiprófið á föstudaginn sl. (9,5 kalla ég bakstur og kaffi með því), og hugsa að ég hafi sömuleiðis straujað Schleiermacher og Nietzsche á trúarheimspekiprófinu í morgun, þó það sé en óstaðfest tilgáta. Stefnan er að taka svipuð heimilisverk á prófin tvö sem eru eftir (ryksuga díakoníuna og skúra trúfræðina, kannski?), þannig að ætli ég verði ekki að leggjast yfir bækurnar á morgun. En ekki fyrr en á morgun. Í kvöld er lífið bara meiri Doctor Who og svo upp í rúm þar til ég sofna útfrá Wheel of Time. Ljúft.

=Þ.

Af Þóru og Gunnu

Ég geri mér grein fyrir því að ekki eru allir jafn lánsamir í þessum heimi. Sumt fólk er t.d. svo óheppið að því hefur ekki hlotnast sú ánægja að fá að verða vitni að samtali milli mín og Gunnu. Hér fylgir því listi, alls ekki tæmandi en sem gefur þó ágætis dæmi, með nokkrum þeim efnum sem við Gunna ræddum í nýafstaðinni ferð okkar í Bónus og á kaffihús.

-Jólaskrautið sem heitir englahár – hvernig lítur það út? (við rifumst lengi um það, og enduðum á að fara í jólabúðina á Laugaveginum og spyrja. Náunginn ætlaði að láta verslunarstjórann senda okkur tölvupóst um málið)
-Skiptir útlit matar máli? Þ.e.a.s., bragðast rækjur eins í myrkri og ljósi? Mætti nota hvítlauk í stað sveppa, eða sykurpúða? Þetta er mjög líkt í útliti.
-Nöfn gefa fólki ákveðin einkenni (Bubbi gefur t.d. krúttleika, en Tim hálfgerðan aumingjaskap)
-Hvernig myndi kaffihús sem seldi kalt kaffi virka? Væri það gott ef maður hefði vanist því?
-Er hægt að vera áhugamanneskja um höfuðlag? Myndi slík manneskja ræna sérlega fallegum hauskúpum og safna þeim? Og í framhaldi af því ...
-Hvernig myndi maður framkvæma það að ræna hauskúpu úr lifandi manneskju? Og hverjar væru afleiðingar þess?
-Kórverk þar sem allir eru látnir skipta um rödd á síðustu stundu – kúl hugmynd eða ekki? (við gerðum línurit til skýringar þessum pælingum)
-Væri gott að vera klofinn persónuleiki uppá skólann að gera? Einn persónuleiki mætir í tíma, þeir skiptast á að læra o.s.frv.
-Er hægt að hafa annan uppruna en foreldrar sínir (t.d. rússneskir foreldrar en íslenskt barn)?
-Er auðveldara að kyngreina stór, flókin dýr (eins og kýr) eða lítil, einföld dýr (eins og bifdýr)?
-Væri hægt að finna upp sjónvarp/útvarp/síma með lykt? Hverjir væru kostir og gallar þess?
-Hvaða orð er best að nota um einhvern sem veit mikið um flugvélar?

Einnig höfum við nýlega rætt mikilvægar spurningar eins og “hvernig má komast til meginlands Evrópu frá Íslandi með hestvagni?”, “hvaða samfélagslegu reglur myndu gilda um giftingu manna og hunda?”, og “er hægt að fara fram úr sjálfum sér, bókstaflega?”. Þess má síðan geta að við getum ekki spilað Scrabble nema finna fyrst hlutlausan dómara með stóra orðabók, okkur er bannað að vera saman í liði í Pictionary/Actionary, og við höfðum lengi sama lykilorð í tölvunum okkar, sama handahófsvalda orðið með sömu viljandi gerðu stafsetningarvillunni, án þess að hafa nokkurskonar samráð um það. Móðir mín er hætt að hlusta þegar við tölum saman fyrir framan hana, því við sleppum svo mörgum orðum og notum svo mörg heimatilbúin orðatiltæki (stafla teningum, brjóta fiðluna, jollíast, sleikja hamstur o.fl) að við erum óskiljanlegar.

Við hyggjumst flytja í sömu íbúð næsta haust - ég á von á að þróun tungumáls okkar verði komin það langt að það geti flokkast sem nýmál eða mállýska uppúr janúarlokum 2009. 

 

�g og Gunna-2
 
=Þ. 

 


Þolinmæði sr. Svavars Alfreðs

Ef ég væri með hatt myndi ég taka ofan fyrir sr. Svavari Alfreð Jónssyni. Það virðist vera samdóma álit ýmissa herramanna að athugasemdakerfi bloggs sérans sé ágætis völlur til skotæfinga í orðaformi, og virðist þar skipta litlu máli hvað Svavar lætur út úr sér. Ef presturinn myndi voga sér að staðhæfa að honum þætti t.a.m. kaffi ágætt, yrði hann blammaður niður á stundinni; einn myndi neita að taka þessa staðhæfingu gilda þar til Svavar kæmi til skýringar og sönnunar með tölur um kaffineyslu sína síðustu árin, annar myndi ásaka hann um tillitsleysi við þá sem þykir te betra, sá þriðji biðja Svavar að útskýra þessa kaffidrykkju sína í ljósi þekktra neikvæðra áhrifa kaffis á líkamann, og sá fjórði myndi láta ljós sitt skína með einhverri smellinni athugasemd um gáfnafar kaffidrykkjumanna. Ef Svavar kæmi ekki með umbeðin rök, sannanir og skífurit máli sínu til stuðnings yrði hann ásakaður um hugleysi og almennan aumingjaskap; “svona eruði allir, þessir kaffidrykkjumenn!”.

Þrátt fyrir þessa skotglöðu pörupilta bloggar Svavar enn. Hvaðan kemur honum þolinmæðin? Það væri gaman að vita. Ég er kannski ekki sammála honum í öllu, en fyrir geysilegri þolinmæði hans ber ég tvímælalaust gífurlega virðingu. Áfram Svavar!

=Þ. 


Myndirnar hennar Huldu og lestrarlistar

Alveg ótrúlega hæfileikarík stelpa hún Hulda Hólmkelsdóttir, kórHuldan mín - skoðið ljósmyndirnar hennar og segið mér að þær séu margar 15 ára stelpurnar sem eru komnar með svona skilning á myndmiðlinum. Svo ég haldi áfram að tjá aðdáun mína á Huldu, þá má einnig heyra hana syngja, sem er engu síðri skemmtun.

 Ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir því hversu mikinn lestur ég er búin að koma mér í fyrr en ég fór að velta því fyrir mér hvers vegna ég virtist aldrei gera neitt nema lesa en ætti samt alltaf svo mikið eftir að lesa, og gerði lista. Fjórir listar, hver öðrum skemmtilegri:  

Bækur sem ég er að lesa því skólinn segir það:
Magnús Jónsson – Saga kristinnar kirkju
M. S. Lausten – Kirkehistorie
Sigurjón Árni Eyjólfsson – Guðfræði Marteins Lúthers
Sigurjón Árni Eyjólfsson – Kristin siðfræði
Sigurjón Árni Eyjólfsson – Tilvist, trú og tilgangur (já, maðurinn kennir mér)
G. Skirbekk og N. Gilje – Heimspekisaga
S. Kierkegaard – Uggur og ótti
Alister McGrath – Historical Theology
Einar Sigurbjörnsson – Kirkjan játar
G. Bexell og C. Grenholm – Siðfræði af sjónarhóli guðfr. og hsp.
H. K. Nielsen – Han elskede os først
J. M. Barnett – The Diaconate 

Bækur sem ég er að lesa mér til aukinnar fræðslu og skemmtunar:
Khaled Hosseini – Flugdrekahlauparinn
Keith Ward – Is Religion Dangerous?
Brian Davies – The Reality of God and the Problem of Evil
Iain Banks – The Steep Approach to Carbadale
Alister McGrath – Christian Theology
C. S. Lewis – Timeless at Heart
C. S. Lewis – The Problem of Pain
Játningar Ágústínusar
Einar Sigurbjörnsson – Credo
 
Bækur sem ég er að endurlesa (kannski ekki góð hugmynd):
Terry Goodkind – Wizard’s First Rule
Mercedes Lackey – The Serpent’s Shadow
Astrid Lindgren – Ronja ræningjadóttir
Sören Olsson og Anders Jacobsson – Áhyggjur Berts (já, í alvörunni) 

Bækur sem mig langar að lesa:
D. Cowan og D. Bromley – Cults and New Religions
Francis Schaeffer – The God Who Is There o.fl.
Scott Lynch – The Gentleman Bastard serían
Guy Gavriel Kay – Tigana o.fl.
Franco Ferrucci – The Life Of God As Told By Himself
Platón – Kríton o.fl.
George R. R. Martin – Song of Ice and Fire serían
Jostein Gaarder – Veröld Soffíu (þ.e.a.s. mig langar að endurlesa hana)

Semsagt, 33 bækur eða bókaseríur sem eru einhversstaðar á lestrarlistanum mínum. Og þetta eru bara þær sem ég mundi eftir, ég veit að það eru t.d. fleiri sem mig langar að lesa. Má ég fá nokkra aukaklukkutíma í sólarhringinn minn? Ég andvarpa þungt í hvert skipti sem einhver segir "ég var að lesa bók sem ég VEIT að þú munt vilja lesa!".

-Þ.

P.S. Alls ekki skilja þetta sem svo að ég vilji ekki að fólk mæli við bókum við mig. Ég fíla það og þrái! Ég andvarpa kannski, en komið endilega með fleiri bókameðmæli! 


Nýtt blogg

Já, ég lét undan félagsþrýstingi. Já, ég fylgdi straumnum. Já, ég vildi vera hip og kúl og eiga Moggablogg, "fullorðins"blogg, eins og allir svölu krakkarnir. Ég gæti réttlætt mig með allskonar orðlengjum, en ég ætla ekki að gera það. Láttu mig vera.


Um bloggið

Talhonjik

Höfundur

Þóra Ingvarsdóttir
Þóra Ingvarsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ekki laust við að smá skemmdir sjáist ef vel er horft
  • Ég og Gunna-2
  • 9
  • 8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband